Erlent

Í­huga að sleppa taumnum á NATO lausum

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur lengi verið gagnrýninn í garð Atlantshafsbandalagsins. Pete Hegseth, varnarmálaráðherra, er með honum á myndinni.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur lengi verið gagnrýninn í garð Atlantshafsbandalagsins. Pete Hegseth, varnarmálaráðherra, er með honum á myndinni. Getty/Anna Moneymaker

Ríkisstjórn Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna, er með til skoðunar að gera umfangsmiklar breytingar á yfirstjórn herafla Bandaríkjanna. Ein þeirra gæti verið að Bandaríkin afsali sér stjórn á herafla Atlantshafsbandalagsins og þykir það til marks um að mögulega ætli Bandaríkjamanna að draga úr umsvifum sínum innan bandalagsins.

Eitt það fyrsta sem maður sér þegar maður gengur inn í höfuðstöðvar SHAPE, herstjórnarmiðstöð Atlantshafsbandalagins í Evrópu, í Mons í Belgíu, er röð stórra andlitsmynda. Fyrsta myndin er af Dwight D. Eisenhower, víðfrægum bandarískum herforingja og síðar meir forseta. Í tæp 75 ár hefur herafli bandalagsins verið leiddur af fjögurra stjörnu herforingja frá Bandaríkjunum, sem ber titilinn SACEUR, en nú gæti það breyst.

Undir stjórn Donalds Trump er til skoðunar að gera umfangsmiklar breytingar á yfirbyggingu herafla Bandaríkjanna, með því markmiði að draga úr fjárútlátum. Er það í takt við yfirlýsta áætlun Pete Hegseth, varnarmálaráðherra, að skera niður hjá varnarmálaráðuneytinu um átta prósent á ári, næstu fimm ár.

Sjá einnig: Ætlar í stórfelldan niðurskurð hjá hernum

Ein af þeim áætlunum sem eru til skoðunar er að gefa embætti SACEUR eftir, samkvæmt heimildarmönnum NBC News úr varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna, og skjölum sem blaðamenn hafa komið höndum yfir.

Núverandi SACEUR er Chris Cavoli en þriggja ára embættistíma hans á að ljúka í sumar. Trump hefur lengi verið gagnrýninn á NATO og önnur aðildarríki fyrir að verja ekki nægilega miklu til varnarmála. Þó fjárútlát flestra aðildarríkja til varnarmála hafi aukist töluvert á undanförnum áratug og stefni í að aukast enn meira, hefur Trump gefið í skyn að hann myndi ekki koma öðru NATO-ríki til varnar ef honum þætti ekki nægjanlega miklu varið til varnarmála þar.

Höfuðstöðvar SHAPE, herstjórnarmiðstöðvar Atlantshafsbandalagins í Evrópu í Mons í Belgíu.NATO

Vilja sameina yfirstjórnir

Herafli Bandaríkjanna hefur ellefu yfirstjórnir. Sex þeirra hafa yfirstjórn yfir herafla Bandaríkjanna á mismunandi heimssvæðum en svo eru aðrar sem hafa stjórn á sviði geimsins, kjarnorkuvopna, sérsveita, tölvumála og flutningsmála. Yfirlit má sjá hér á vef varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna.

SACEUR hefur einnig yfirstjórn yfir öllum herafla Bandaríkjanna í Evrópu, eða EUCOM og eru höfuðstöðvar þeirrar yfirstjórnar í Stuttgart í Þýskalandi.

Samkvæmt áðurnefndri áætlun sem er til skoðunar í Bandaríkjunum gætu fimm af þessum ellefu yfirstjórnum verið felldar inn í aðrar. Meðal annars kæmi til greina að sameina EUCOM og AFRICOM í eina yfirstjórn í Stuttgart.

Á myndinni hér að neðan má sjá hvernig sex af yfirstjórnum herafla Bandaríkjanna skipta heiminum.

Svona skipta yfirstjórnir herafla Bandaríkjanna heiminum sín á milli.Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna

EUCOM og AFRICOM voru á árum áður undir einu þaki en George W. Bush, fyrrverandi forseti, lét skipta þeim upp árið 2007 til að auka skilvirkni, þar sem þessi tvö svæði eru gríðarlega stór.

James Stavridis, sem starfaði sem SACEUR frá 2009 til 2013, sagði í ummælum til NBC News að enginn einn maður gæti í raun haft yfirstjórn á sameinuðu EUCOM og AFRICOM.

„Of mörg ríki, of margt fólk, of mörg ólík málefni.“

Þetta sagði Stavridis og benti á að þó þetta hafi á árum áður verið ein yfirstjórn að nafninu til hafi tveir herforingjar ráðið ríkjum þar vegna þess hve umfangsmikið starfið var.

Um það að stíga til hliðar úr leiðtogastöðunni í NATO segir Stavridis að um væri að ræða gífurlega mikil pólitísk mistök. Bandaríkin myndu aldrei fá aftur leiðtogasætið og innan NATO yrði réttilega litið á þetta sem fyrsta skref Bandaríkjanna í að yfirgefa bandalagið.

Heimildarmenn NBC segja að verði yfirstjórnir EUCOM og AFRICOM sameinaðar væri það hluti af því að Bandaríkjamenn hættu að sinna embætti SACEUR. Herforingi gæti ekki bæði haldið utan um málefni Evrópu og Afríku annars vegar og stýrt herafla NATO hins vegar.

Ætlanirnar fela einnig í sér að sameina NORTHCOM og SOUTHCOM og að hætta við áætlanir um aukin umsvif Bandaríkjamanna í Japan.

Sjaldgæfar mótbárur gegn Trump

Leiðtogar varnarmálanefnda fulltrúa- og öldungadeilda Bandaríkjaþings sendu í vikunni frá sér yfirlýsingu þar sem þessum ætlunum ríkisstjórnar Trumps er mótmælt. Þeir Roger Wicker og Mike Rogers segja ekki hægt að gera svo umfangsmiklar breytingar á yfirstjórn herafla Bandaríkjanna án mikillar umhugsunar og skipulagningar.

Þá sé aðkoma þingsins að slíkum ætlunum nauðsynleg.

Þingmennirnir segja einnig að yfirstjórnir herafla Bandaríkjanna séu „oddurinn“ á spjóti bandarísks herafla. Þeir hefðu miklar áhyggjur af þessum fregnum og því að ekkert samráð hefði verið milli Hvíta hússins og þingsins.

„Við styðjum forsetann í þeirri viðleitni að fá bandamenn okkar og félaga til að auka fjárútlát þeirra og styrkja bandalag okkar og við styðjum áframhaldandi leiðtogahlutverk Bandaríkjanna á alþjóðasviðinu.“

Þess vegna sögðust þeir ekki geta samþykkt umfangsmiklar breytingar á yfirbyggingu herafla Bandaríkjanna án ítarlegs ferlis og samráðs milli Hvíta hússins, þingsins, herforingjaráðsins og yfirmanna hersins.

Annars væri hætta á því að draga verulega úr viðbragðsgetu Bandaríkjanna við utanaðkomandi ógnum og veikja stöðu ríkisins gagnvart andstæðingum þess.

Mitch McConnell, sem stýrir annarri varnarmálanefnd í öldungadeildinni, sendi einnig frá sér tilkynningu þar sem hann sagði það ekki í hag Bandaríkjanna að gera umræddar breytingar.

„Ef okkur er alvara í að hvetja bandamenn okkar í Evrópu til að styrkja sig er það skrítin leið að sýna það með því að stíga til hliðar úr leiðtogastöðu okkar í bandalaginu.“

Í grein Punchbowl News um málið er ítrekað að frá því að Trump settist aftur að í Hvíta húsinu sé mjög sjaldgæft að þingmenn séu með mótbárur við hann. Yfirlýsing vikunnar sé til marks um mikla þreytu hóps þingmanna varðandi afstöðu Trumps til varnarmála.

Yfirlýsing Wicerks og Rogers þykir líka til marks um það að frétt NBC News sé rétt og að til greina komi að leggja embætti SACEUR niður og mögulega að snúa baki við NATO.

Svaraði ekki spurningu um NATO

Trump var spurður út í þessar fregnir í gær á blaðamannafundi þar sem hann tilkynnti að Boeing myndi framleiða næstu kynslóð bandarískra herþota. Þá neitaði hann að svara spurningunni beint.

Þess í stað sagðist Trump hafa bjargað NATO. Hann hafi fengið önnur ríki til að verja meira til varnarmála og það hafi bjargað NATO.

„Sko, NATO er öflugt, það er sterkt, en þeir verða að koma fram við okkur af meiri sanngirni,“ sagði Trump. „Því án okkar, er NATO ekki það sama.“

Trump vísaði því næst í Vladimír Pútín, forseta Rússlands, og viðræður sínar við hann.

„Pútín mun segja ykkur, að án Bandaríkjanna hefði hann engar áhyggjur en hann hefur áhyggjur þegar Bandaríkin koma þar að.“

Hann svaraði því spurningunni um það hvort hann ætlaði sér að leggja embætti SACEUR niður en gaf til kynna að svo gæti farið.

Kaupa mun minna frá Bandaríkjunum

Leiðtogar Evrópusambandsins hafa á undanförnum vikum tilkynnt umfangsmikil fjárútlát til varnarmála á næstu árum og endurbætur á hergagnaiðnaði heimsálfunnar.

Sjá einnig: Sam­þykktu breytingar á stjórnar­skrá Þýska­lands

Markmið þessara aðgerða er að gerbreyta öryggiskerfi Evrópu og reiða mun minna á Bandaríkin en áður hefur verið gert. Þetta er í kjölfar þess að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, og embættismenn hans hafa sagt að Evrópa verði að bera meiri ábyrgð á eigin öryggi og í kjölfar þess að Trump-liðar hafa fært Bandaríkin mun nær Rússlandi og jafnvel talað máli Rússa.

Sjá einnig: Ætla að sigra í vopnakapphlaupi við Rússa

Ríki Evrópu hafa um árabil reitt sig að miklu leyti á hergagnaframleiðendur Bandaríkjanna. Í nýlegri skýrslu kom til að mynda fram að á undanförnum fimm árum hefur innflutningur Evrópu á hergögnum rúmlega tvöfaldast, borið saman við fimm árin þar áður.

Nærri því tveir þriðju þessara hergagna komu frá Bandaríkjunum.

Í vikunni opinberaði framkvæmdastjórn ESB öryggisáætlun og eru aðildarríki samkvæmt henni hvött til að verja eins miklu fjármunum og mögulegt er innan Evrópu og sérstaklega Evrópusambandsins.

Samkvæmt öryggisáætluninni, vilji ríki ESB fá lán frá sambandinu til hergagnakaupa þarf að verja að minnsta kosti 65 prósentum upphæðarinnar sem um ræðir innan sambandsins, eða í Noregi eða Úkraínu, samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar.

Bretar hafa einnig viljað fá að taka þátt, þó þeir hafi yfirgefið ESB fyrir fimm árum síðan.

Bjóða Evrópu gas

Erindrekar frá Kanada hafa þar að auki verið tíðir gestir í Evrópu undanfarnar viku og hafa þeir meðal annars rætt það við kollega sína að taka þátt í þessari uppbyggingu. Kanadísk fyrirtæki gætu þannig tekið við pöntunum frá Evrópu og öfugt.

Samband Kanada og Bandaríkjanna hefur beðið mikla hnekki frá því Trump tók við embætti. Hann hefur beitt nágranna sína í norðri tollum og hefur ítrekað krafist þess að Kanadamenn láti af fullveldi sínu og gangi inn í Bandaríkin.

Sjá einnig: „Við munum ekki standa að­gerðar­lausir hjá“

Samkvæmt greiningu ríkisútvarps Kanada hefur ríkið ekki yfir miklum herafla til að bjóða Evrópu en Kanadamenn eru þó ríkir af ýmsum auðlindum sem íbúar Evrópu þarfnast. Má þar nefna jarðgas en til að draga úr innkaupum á gasi frá Rússlandi leituðu ríki Evrópu í miklu magni til Bandaríkjanna.

Þaðan fær Evrópa nú um helming alls gass og er heimsálfan því aftur komin í viðkvæma stöðu á því sviði, þar sem Trump gæti skrúfað fyrir kranann, ef svo má segja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×