Erlent

Ísraels­her tekur aftur yfir Netzarim-mörkin og lokar þeim

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Margir íbúar snéru aftur yfir Netzarim-mörkin eftir brotthvarf Ísraelshers í kjölfar vopnahlésins. Nú hafa Ísraelsmenn snúið aftur og lokað.
Margir íbúar snéru aftur yfir Netzarim-mörkin eftir brotthvarf Ísraelshers í kjölfar vopnahlésins. Nú hafa Ísraelsmenn snúið aftur og lokað. Getty/Majdi Fathi

Ísraelsher hefur hafið „afmarkaða“ aðgerð á Gasa til að taka aftur Netzarim-mörkin, sem skipta svæðinu í tvennt. Fleiri en 400 létust í loftárásum Ísraela á mánudag, þar af 183 börn og 94 konur, að sögn Hamas.

Um það bil 20 eru sagðir hafa látist í aðgerðum Ísraels í nótt, þeirra á meðal starfsmaður Sameinuðu þjóðanna sem lést þegar tvö gistiheimili SÞ í Deir al-Balah urðu fyrir árásum.

Talsmaður António Guterres, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, segir að kallað hafi verið eftir rannsókn á atvikinu, þar sem allir aðilar viti vel hvar starfsmenn SÞ hafast við og séu bundnir af alþjóðalögum að vernda þá.

Herinn hefur neitað að hafa skotið á bygginguna.

Guardian hefur eftir heimildarmönnum að starfsmenn einkarekins öryggisfyrirtæki sem hafði eftirlit á Netzarim-mörkunum hafi yfirgefið þau í nótt og ísraelskir hermenn tekið yfir. Þá er herinn sagður hafa lokað fyrir allar ferðir á milli norður- og suðurhluta Gasa.

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, segir að yfirstandandi aðgerðir, sem bundu enda á vopnahléð sem ríkt hefur síðustu vikur, muni halda áfram þar til allir gíslar hafi verið látnir lausir og Hamas útrýmt.

Þá beindi varnarmálaráðherrann Israel Katz orðum sínum til íbúa Gasa í gær og skoraði á þá að beita sér fyrir lausn gíslanna og endalokum Hamas. Þá myndi möguleikar opnast fyrir þeim, meðal annars að yfirgefa Gasa og leita annað.

Katz er meðal þeirra sem hafa fagnað mjög hugmyndum Donald Trump Bandaríkjaforseta um að flytja íbúa Gasa frá svæðinu og byggja þar upp ferðamannaparadís.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×