Upp­gjör, myndir og við­töl: Kefla­vík - Valur 67-91 | Frá­bærir Vals­menn rúlluðu yfir Kefla­vík á leið sinni í bikarúrslit

Árni Jóhannsson skrifar
Úr leik kvöldsins.
Úr leik kvöldsins. Vísir/Diego

Bikarmeistarar Keflavíkur mættu ofjarli sínum í Val í Smáranum í Kópavogi í seinni undanúrslitaleik kvöldsins í VÍS-bikar karla í körfubolta. Valsmenn voru fullir sjálfstrausts allar 40 mínúturnar en Keflvíkingar misstu sitt sjálfstraust í öðrum leikhluta. Leikurinn endaði 67-91 og Valur leikur við KR í bikarúrslitunum.

Kári Jónsson átti mjög góða kafla í kvöld.Vísir / Diego

Fyrsti leikhluti var í jafnvægi þar sem liðin skiptust á áhlaupum. Keflavík átti fyrsta vers en svo tók Valur yfir. Valsmenn komust fyrst fimm stigum yfir í 4-9 en Keflvíkingar bitu í skjaldarrendur, minnkuðu muninn, komust yfir og fóru í skotsýningu með Valsmönnum. Forystan skipti um hendur nokkrum sinnum áður en fyrsta leikhluta lauk í stöðunni 19-21. Bæði lið virtust læra á hvort annað á fyrstu mínútum leiksins og boðaði það gott. Allavega betra en það sem raungerðist.

Kristinn Pálsson var illviðráðanlegur í kvöldVísir / Diego

Fyrstu mínútur annars leikhluta voru jafnar og bæði lið að spila fína vörn og setja skot ofan í. Svo fraus allt hjá Keflvíkingum. Keflvíkingar hættu að hitta, þrátt fyrir að fá flott tækifæri og það þurfti ekki að bjóða Valsmönnum það tvisvar. Þeir gengu á lagið með Kristinn Pálsson, Kára Jónsson og Joshua Jefferson fremsta í broddi fylkingar. Hver þristurinn rak annan á meðan Keflvíkingar skoruðu ekkert nánast. Sjálfstraust Keflvíkinga þvarr en það byggðist upp hjá Val og þá er ekki að spyrja að því, Valsmenn komast í stuð og ganga frá leiknum. Staðan 35-51 fyrir Val í hálfleik og Valsmenn með 61% nýtingu sem átti eftir að halda áfram langt inn í seinni hálfleik.

Adam Ramstedt gnæfir yfir Keflvíking á meðan Kristinn Pálsson sendir niður þrist. Táknrænt fyrir gang leiksins.Vísir / Diego

Seinni hálfleikur varð aldrei spennandi. Valsmenn héldu gæðum sínum á báðum endum vallarins. Keflvíkingar náðu ekki að komast á sprett til að draga Val nær sér sem fjarlægðist þá með hverju þriggja stiga skotinu og stoppinu á varnarhelmingnum sem leið. Mestur varð munurinn 28 stig í stöðunni 49-77 sem var staðan fyrir lokaleikhlutann sem var formsatriði.

Valsmenn slökuðu að sjálfsögðu á en Keflvíkingar áttu ekkert eftir á tankinum. Minni spámenn fengu að sjá gólfið á svokölluðum ruslamínútum og leiknum lauk í stöðunni 67-91. Valsmenn fara því í bikarúrslitin á laugardaginn þar sem erkifjendur þeirra úr Vesturbæ Reykjavíkur bíða spenntir eftir að mæta þeim.

Atvik leiksins

Frammistaða Vals er í raun og veru eitt stórt atvik því hún var heildstæð og frábær í einu orði sagt. Það er þó hægt að tína til röð atvika í lok þriðja leikhluta sem greyptu úrslitin í stein þegar Joshua Jefferson setti niður þrist úr annarri sýslu, stal svo boltanum í næstu sókn Keflvíkinga sem skilaði sér í viðstöðulausri troðslu frá Taiwo Badmus. Við það trylltist allt Valsmegin og síðustu droparnir tæmdumst hjá Keflvíkingum. Þessi fimm stig komu muninum í 49-77 sem var mesti munur leiksins.

Frank Booker er holdgervingur sjálfstrausts og stemmningarinnar sem Valur getur skapað sér.Vísir / Diego

Stjörnur og skúrkar

Hjá Val voru margar stjörnur og engir skúrkar. Öfugt við Keflvíkinga sem áttu marga skúrka en engar stjörnur. Kristinn Pálsson, Joshua Jefferson og Kári Jónsson drifu sitt lið áfram en Josh Jefferson skilaði góðu framlagi af bekknum hjá Val. Kristinn var stigahæstur og allir þristar þessara manna voru naglar í kistu Keflvíkinga. Adam Ramstedt var svo með hæsta +/- eða 27 stiga mun þegar hann var inn á.

Hjá Keflavík var Callum Lawson sá eini sem komst yfir tíu stig. Ty-shon Alexander var með tvö stig í hálfleik og virkaði áhugalaus og aðrir sem reyndu hvað þeir gátu að berjast og komast á körfuna hittu ekkert og því fór sem fór.

Callum Lawson sá eini Keflavíkur megin sem komst nálægt sínu besta.Vísir / Diego

Umgjörð og stemmning

Frábær umgjörð í Smáranum eins og endranær. Bæði lið mættu með smekkfullar stúkur og var mikið sungið og trallað. Valur trallaði í 40 mínútur en Keflvíkingar minna enda ekki tilefni til þegar leið á leikinn.

Dómarar leiksins

Ekkert út á þá að setja. Voru ekki fyrir, leyfðu leiknum að fljóta vel og dæmdu bara á það sem þurfti að dæma á. Góð stjórn og gott flot á þessu hjá þeim.

Dómarar leiksins flottir í kvöld.Vísir / Diego

Finnur Freyr: Körfuboltaleikur er í 40 mínútur og það þarf að spila þær allar

Keflavík - Valur Bikarinn Karla Vetur 2025 Finnur FreyrVísir / Diego

Þjálfari Valsmanna, Finnur Freyr Stefánsson, var að vonum ánægður með sína menn í kvöld. Hvað skilaði sigrinum.

„Þegar við náum að koma varnarleiknum þannig fyrir að við stöðvum þá þá fór þetta að ganga vel. Svo fórum við að fá stig úr mörgum áttum. Josh kom inn af bekknum með kraft og Kristinn var að setja hann fyrir utan þá fór að ganga vel. Svo þegar Keflvíkingar fóru að flýta sér að þessu og skotin hættu að fara ofan í þá kom örvænting í þá og ég er ánægður með það hvernig við komum út í síðari hálfleikinn.“

Talandi um síðari hálfleikinn, þá gekk fyrri hálfleikurinn vonum framar, hvað þurfti að ræða í klefanum í hálfleik?

„Bara að halda mönnum við efnið. Körfuboltaleikur er í 40 mínútur og það þarf að spila þær allar. Það voru nokkrir hlutir sem við gerðum illa og við reyndum að finna það sem hægt var að laga. Það var mjög gott að fá góðar mínútur frá Taiwo í byrjun seinni hálfleiksins. Þetta var bara eins og hver annar körfuboltaleikur og sem betur fer náðum við góðum mun og náðum að halda út.“

Valsmenn eru samt á góðum stað og hvað sér hann fyrir sér á laugardaginn.

„Við erum á góðum stað í dag en svo kemur nýr leikur á laugardaginn og þá getur allt gerst. Það er ótrúlega gaman að vera kominn í úrslitaleikinn en Valur er búið að spila ótrúlega marga af stærstu leikjum tímabilsins undanfarin ár. Það er gaman að komast í enn einn svoleiðis. Okkur líður vel í þeim aðstæðum og svo kemur í ljós hvað gerist en við gerum okkar besta.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira