Sport

Haf­þór Júlíus keppir á móti í Síberíu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hafþór Júlíus Björnsson er á leiðinni til Síberíu í Rússlandi í næsta mánuði.
Hafþór Júlíus Björnsson er á leiðinni til Síberíu í Rússlandi í næsta mánuði. @thorbjornsson

Íslenski aflraunamaðurinn Hafþór Júlíus Björnsson verður meðal keppenda í aflraunakeppni í Síberíu í Rússlandi.

Keppnin heitir Siberian PRO og fer fram í Krasnoyarsk í Síberíu frá 19. til 20. apríl næstkomandi. Krasnoyarsk er í suðurhluta Síberíu ekki langt frá landamærum Rússlands og Mongólíu.

Hafþór Júlíus er einn af sjö erlendum keppendum á mótinu en hinir koma frá Póllandi, Kanada, Bretlandi, Svíþjóð, Ástralíu og Íran. Auk þess taka fjórir heimamenn þátt í keppninni.

Greinarnar verða dæmigerðar keppnisgreinar í aflaunakeppnum.

Þarna verður réttstöðulyfta, sandpokakast, keppni með stighækkandi handlóðum, axlarpressa, fjölþraut og steinaburður.

Hafþór Júlíus tók nýverið þátt í Arnold Strongman Classic aflaunakeppninni þar sem hann varð í þriðji á eftir Mitchell Hooper frá Kanada og Lucas Hatton frá Bandaríkjunum. Þeir eru hvorugir með á mótinu í Síberíu.

Hafþór Júlíus hefur talað um það að setja nýtt heimsmet í réttstöðulyftu og það verður fróðlegt að sjá hvort hann ógni því eitthvað á þessu móti. Heimsmetið er 501 kíló og í eigu Hafþórs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×