Íslenski boltinn

Ný átta sekúndna regla inn­leidd hér á landi

Aron Guðmundsson skrifar
Frá leik í Bestu deild karla
Frá leik í Bestu deild karla Vísir/Diego

Stjórn KSÍ samþykkti á fundi sínum í gær að inn­leiða svo­kallaða átta sekúndna reglu í mótum sínum hér á landi. Reglan á að taka á leiktöf og hraða leiknum.

„Við erum að breyta lögunum til að þess að reyna hraða leiknum,“ segir Þóroddur Hjaltalín, starfs­maður dómaramála hjá KSÍ. „Mark­maðurinn hefur hingað til mátt halda á boltanum í sex sekúndur eftir að hann nær valdi á boltanum annars hefur dómarinn átt að dæma óbeina auka­spyrnu. Því hefur ekki oft verið beitt en nú erum við að breyta þessu þannig að mark­maðurinn hefur átta sekúndur en eftir það, ef hann er enn með boltann í höndunum þegar að þær sekúndur eru liðnar ber dómaranum að dæma horn­spyrnu.

Þóroddur Hjaltalín er fyrrverandi dómari. Í dag vinnur hann hjá Knattspyrnusambandi Íslands við mál sem snúa að dómgæslu.Vísir/Einar

Dómarinn mun setja upp höndina og telja niður fyrir mark­manninn sekúndurnar og er um að ræða svipaða handa­bendingu og þegar að um rangstöðu er að ræða nema dómarinn telur niður með fingrunum. Mark­maðurinn sér hvenær hann þarf að vera búinn að losa sig við boltann.“

Nánar má lesa um breytinguna hér.

Skoðun margra er á þá leið að sex sekúndna reglunni sálugu hafi ekki verið nógu hart fylgt eftir og gæti það talist list­grein hjá sumum mark­mönnum að nýta sér sekúndurnar sex og gott betur en það.

Var erfitt fyrir dómara að fylgja þeirri reglu eftir?

„Já það hefur verið það. Að dæma óbeina auka­spyrnu innan víta­teigs er rosa­lega stór ákvörðun. Oftar en ekki sjáum við mörk koma upp úr því. Það er auðveldara að dæma horn­spyrnu en fram­kvæmdin á þessu verður alveg þannig að mark­maðurinn veit alveg hvenær að hann þarf að vera búinn að losa sig við boltann. Ég held að þegar að við förum inn í mótin verði þetta ekki stór breyting.“

Um­rædd reglu­breyting hefur nú þegar verið prófuð í nokkrum löndum til þessa og verður tekin upp í öllum helstu deildum Evrópu.

Nánar verður rætt við Þórodd Hjaltalín, fyrrverandi dómara og starfsmann KSÍ í dómaramálum, um breytinguna í Sportpakkanum á Stöð 2 að loknum fréttum í opinni dagskrá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×