Enski boltinn

Segir að Maresca verði rekinn ef næstu tveir leikir vinnast ekki

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Enzo Maresca tók við Chelsea fyrir þetta tímabil.
Enzo Maresca tók við Chelsea fyrir þetta tímabil. getty/Neal Simpson

Paul Merson, sparkspekingur á Sky Sports, segir að Enzo Maresca gæti misst starfið sitt hjá Chelsea ef liðið vinnur ekki næstu tvo leiki sína í ensku úrvalsdeildinni.

Eftir gott gengi framan af tímabili hefur hallað undan fæti hjá Chelsea að undanförnu. Liðið tapaði fyrir Aston Villa um helgina og Merson telur að það sé orðið ansi heitt undir Maresca.

Chelsea mætir nýliðum Southampton og Leicester City í næstu tveimur leikjum og Merson segir að ef liðið vinni ekki báða leikina verði Maresca látinn taka pokann sinn.

„Ef þeir vinna ekki næstu tvo leiki verður stjórinn ekki lengur þarna,“ sagði Merson.

„Þeir eru að spila við tvö af verstu liðum sem hafa verið í deildinni ég veit ekki hvað lengi. Svo ef þeir vinna ekki þessa tvo leiki verður hann heppinn að halda starfinu. Chelsea verður að komast í Meistaradeild Evrópu til að halda leikmönnum eins og Cole Palmer. Þeir verða að enda meðal fimm efstu liða annars óttast ég hvað gerist. Ég sé ekki hvert planið er. Allir þessir sjö ára samningar og þessir leikmenn verða ekkert betri. Hversu margir þeirra hafa verið virkilega góðir?“

Chelsea er dottið niður í 7. sæti ensku úrvalsdeildarinnar eftir brösugt gengi að undanförnu.

Chelsea mætir Southampton á Stamford Bridge klukkan 20:15 í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×