Enski boltinn

Tottenham vill ekki láta kalla sig Tottenham

Sindri Sverrisson skrifar
Tottenham Hotspur vann Manchester United um síðustu helgi.
Tottenham Hotspur vann Manchester United um síðustu helgi. Getty/Rob Newell

Forráðamenn enska knattspyrnufélagsins Tottenham Hotspur hafa nú misst þolinmæðina og ákveðið að freista þess að fá fjölmiðlamenn til að hætta að kalla liðið Tottenham.

The Athletic greinir frá því í dag að Spursarar hafi sent tölvupóst til breskra sjónvarpsfyrirtækja og hvatt til þess að liðið þeirra verði ekki kallað Tottenham.

„Tottenham Hotspur hefur skýrt málin varðandi nafn félagsins. Þess er farið á leit að félagið verði fyrst og fremst þekkt sem Tottenham Hotspur, eða Spurs ef þörf er á styttingu. Félagið fer fram á að ekki verði vísað til þess sem Tottenham,“ segir í bréfinu frá félaginu.

Samkvæmt The Athletic þá er ástæðan fyrir þessari beiðni Spurs sú að „Tottenham“ vísi til hverfis í Norður-Lundúnum en ekki beinlínis til félagsins. Það hafi verið afstaða félagsins frá árinu 2011.

Tottenham Hotspur situr í 12. sæti ensku úrvalsdeildarinnar fyrir leiki helgarinnar. Liðið er með 30 stig eftir 25 leiki og mætir Ipswich á morgun klukkan 15.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×