Innlent

Hellti kveikjarabensíni yfir mann og hótaði að kveikja í

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Dagurinn var annasamur hjá lögreglumönnum á lögreglustöð 1.
Dagurinn var annasamur hjá lögreglumönnum á lögreglustöð 1. vísir/vilhelm

Lögregla hafði afskipti af manni sem er sagður hafa hellt kveikjarabensíni yfir annan og hótað að kveikja í. Hann var handtekinn og vistaður í fangaklefa vegna málsins.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í dagbók lögreglunnar frá í dag. Lögreglumönnum á lögreglustöð eitt barst útkallið en sú stöð sinnir verkefnum í miðbænum, austurbæ, vesturbæ og Seltjarnarnesi.

Þeim barst einnig tilkynning um einstakling sem talinn var vera að henda sér í veg fyrir bifreiðar. Lögregla gaf sig þá á tal við hann sem kvaðst hafa verið að hlusta á tónlist og ekki gætt að sér.

Aðstoðar lögreglu var óskað í sama umdæmi vegna innbrots í bifreið sem ferðamenn höfðu til umráða. Stolið hafði verið ferðatösku meðal annars. Tjónþoli fann ferðatöskuna en kvaðst sakna einhverra muna úr henni. Lögregla telur sig vita hver gerandi er og segir málið í rannsókn.

Í umdæmi lögreglustöð þrjú var tilkynnt um einstakling sem svaf ölvunar- eða vímuefnasvefni í bíl. Fram kemur að hann hafi brugðist illa við þegar lögregla gaf sig á tal við hann. Hann var færður í lögreglutök og handtekinn. Hann er einnig grunaður um ofbeldi gangvart lögreglumanni en hann hótaði lögreglumanni lífláti og hrækti í andlit hans. Honum var komið fyrir í fangaklefa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×