Fótbolti

Malmö sagt bjóða Arnóri tug­milljóna undirskriftarbónus

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Arnór Sigurðarson er eftirsóttur í Svíþjóð.
Arnór Sigurðarson er eftirsóttur í Svíþjóð. vísir

Þrjú félög í sænsku úrvalsdeildinni eru sögð keppast um undirskrift Arnórs Sigurðarsonar, sem losnaði undan samningi hjá Blackburn Rovers fyrr í dag. Malmö er talið líklegasta liðið til að landa Arnóri og er sagt tilbúið að borga vel fyrir hans undirskrift.

Greint var frá því fyrr í dag að Arnór væri laus úr prísundinni hjá Blackburn og gæti farið að leita sér að nýju liði.

Þrjú lið í Svíþjóð eru sögð áhugasöm: Malmö, Norrköping og Djurgården, en félagaskiptaglugginn þar í landi lokar ekki fyrr en 25. mars.

Fotbollskanalen telur Malmö vera líklegasta áfangastað Arnórs, félagið er sagt bjóða Arnóri langan samning og „nokkrar milljónir [sænskra] króna“ í undirskriftarbónus. 

Ein sænsk króna jafngildir um þrettán íslenskum krónum. „Nokkrar milljónir“ myndu þá vera nokkrar tugir milljóna íslenskra króna, sem Arnór fengi í undirskriftarbónus. 

Arnór hefur glímt við mikil meiðsli og veikindi í vetur og ekki spilað síðan í október síðastliðnum.vísir

Samkvæmt heimildum Fotbollskanalen er Arnór áhugasamur um að semja við Malmö. 

Hann hafi ekki áhuga á Djurgården eins og er, en gæti vel hugsað sér að spila aftur fyrir Norrköping, þar sem hann hefur tvisvar verið áður, félagið hafi hins vegar ekki úr sömu peningum að spila og Malmö. 

Arnór þó beri miklar taugar og tilfinningar til Norrköping, sem gæti spilað inn í ákvörðunina. Auk þess séu mjög spennandi tímar framundan og tækifæri hjá Norrköping undir nýja stjóranum Martin Falk.


Tengdar fréttir

Arnór hættur með Sögu

Arnór Sigurðsson, leikmaður Blackburn í Englandi og íslenska landsliðsins, er einhleypur. Nýlega slitnaði upp úr sambandi hans og sænsku kærustunnar Sögu Palffy.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×