Körfubolti

„Á­kefðin er orðin miklu meiri“ eftir þjálfarabreytingar í Kefla­vík

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Helena Sverrisdóttir er hrifin af því sem hún hefur séð hjá Keflavík undanfarið.
Helena Sverrisdóttir er hrifin af því sem hún hefur séð hjá Keflavík undanfarið.

Körfuboltakvöld ræddi lið Keflavíkur, sem hefur tekið miklum framförum eftir þjálfarabreytingar.

Keflavík skipti um þjálfara á nýju ári. Friðrik Ingi Rúnarsson sagði starfi sínu lausu og Sigurður Ingimundarson og Jón Halldór Eðvaldsson voru fengnir í hans stað.

Liðið vann fyrstu þrjá leikina undir stjórn Sigurðar og Jóns, tapaði svo naumlega gegn toppliði Hauka í síðustu umferð.

Klárlega betra eftir breytingarnar

„Ertu farin að sjá einhverja mynd? Erum við ekki farin að sjá, þetta er aðeins öðruvísi?“ velti Hörður Unnsteinsson fyrir sér, þáttastjórnandi Körfuboltakvölds.

„Jú, klárlega. Varnarleikurinn er ekki sá sami… og við erum að sjá, þegar þess þurfti, að ákefðin er orðin miklu meiri. Það er greinilega verið að leggja áherslu á það,“ svaraði Helena Sverrisdóttir.

Keflavík hefur sett meiri kraft í varnarleikinn eftir áramót.vísir

Einkennisvörn Keflavíkur aftur sjáanleg

„Þær festast ekki í einhverju ákveðnu, og maður þekkir það frá þessum Keflavíkurliðum, þú ert alltaf að giska og veist aldrei hvað kemur. Það hefur mér allavega fundist einkennismerki Keflavíkur í gegnum árin: Þær ná að brydda upp á einhvern varnarleik sem truflar sóknina alltaf…

Það var ekki að sjá fyrri hluta tímabils,“ sagði Hörður.

Ólöf Helga Pálsdóttir var sammála því og sagðist vera farin að sjá aftur það sem hún þekkir af Keflavík.

„Algjörlega. Og þeir eiga eftir að koma með fullt svona, félagarnir Siggi og Jonni. Þær eiga eftir að njóta sín,“ bætti hún við.

Umræðuna í heild sinni má finna í spilaranum hér fyrir neðan. Næsti leikur Keflavíkur er á miðvikudaginn, útileikur gegn Aþenu.

Klippa: Framfarir hjá Keflavík



Fleiri fréttir

Sjá meira


×