Maguire hetja United í bikarnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Harry Maguire fagnar sigurmarki sínu fyrir Manchester United í kvöld.
Harry Maguire fagnar sigurmarki sínu fyrir Manchester United í kvöld. Getty/Gareth Copley

Miðvörðurinn Harry Maguire var hetja Manchester United í kvöld þegar hann skoraði sigurmarkið í 2-1 endurkomusigri á Leicester City.

United er þar með fyrsta liðið til að komast áfram í sextán liða úrslit enska bikarsins á þessu tímabili.

Þetta var langþráður heimsigur enda aðeins sá þriðji í síðustu átta leikjum. Þessi var samt gríðarlega mikilvægur fyrir Ruben Amorim og leikmenn hans.

Leicester komst í 1-0 en United mönnum tókst að snúa við leiknum í síðari hálfleiknum ekki síst þökk sé góðri innkomu Alejandro Garnacho.

Sigurmark Maguire kom á þriðju mínútu í uppbótatíma þegar hann skallaði aukaspyrnu frá Bruno Fernandes. Leikmenn Leicester vildu fá rangstöðu en aðstoðardómarinn veifaði ekki. Það er engin myndbandsdómgæsla á þessu stigi í enska bikarnum og því stóð markið þótt að það hafi verið mikil rangstöðulykt af því.

Varamaðurinn Joshua Zirkzee hafði jafnað metin þegar hann fylgdi á eftir skoti Rasmus Hojlund í varnarmann. Garnacho gerði mjög vel í aðdraganda þess marks.

Ruud van Nistelrooy tapaði þarna í fyrsta sinn sem stjóri á Old Trafford en hann stýrði United liðinu um tíma fyrr í vetur með góðum árangri.

Bobby De Cordova-Reid kom Leicester í 1-0 í bragðdaufum fyrri hálfleik en liðinu tókst ekki að halda þetta út. Nú getur liðið farið að einbeita sér að því að reyna að halda sér í ensku úrvalsdeildinni.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira