Körfubolti

Lebron segir komu Doncic súrealíska: „Verða mörg augu á okkur“

Aron Guðmundsson skrifar
Lebron spilaði á móti Clippers í gær. Doncic var á svæðinu en spilaði ekki. Hann er að jafna sig á kálfameiðslum
Lebron spilaði á móti Clippers í gær. Doncic var á svæðinu en spilaði ekki. Hann er að jafna sig á kálfameiðslum Vísir/Samsett mynd

Lebron James, stjörnuleikmaður NBA liðs Los Angeles Lakers segir það enn súrealískt fyrir sig að sjá Luka Doncic mættan til Lakers. Doncic var hluti af sögulegum skiptum í NBA deildinni. 

Los Angeles Lakers og Dallas Mavericks hafa snúið NBA-heiminum á hvolf með skiptum sem sendu Luka Doncic til Lakers og Anthony Davis til Mavericks en auk Luka fengu Lakers kraftframherjana Maxi Kleber og Markieff Morris meðan framherjinn Max Christie fylgir Davis til Dallas ásamt valrétti í fyrstu umferð árið 2029.

Lebron, sem er einn besti körfuboltamaður allra tíma, segir að það muni vera sérstakt að spila við hlið Doncic með Los Angeles Lakers. 

„Það verða mörg augu á okkur,“ sagði Lebron við fjölmiðla aðspurður um viðbrögð sín, „Hlustið á mig. Luka er stór leikmaður. Hann er aðeins 25 ára gamall, ekki kominn á sitt besta skeið á ferlinum og nú þegar hefur hann gert stórbrotna hluti í deildinni. Ég er ánægður með að hafa hann hér í Los Angeles. Þetta er enn dálítið súrealískt í fullri hreinskilni sagt.“

Og Doncic sjálfur var undrandi á skiptunum. 

„Þið getið rétt ímyndað ykkur hversu undrandi ég var. Ég þurfti að kanna hvort það væri 1.apríl. Ég trúði þessu ekki.“

Los Angeles Lakers bar 25 stiga sigur úr býtum, 122-97, gegn nágrönnum sínum í Los Angeles Clippers í nótt. Doncic var ekki með liði Lakers í leiknum, hann hefur verið að glíma við meiðsli í kálfa en forráðamenn liðsins búast við því að hann geti leikið sinn fyrsta leik með liðinu síðar í mánuðinum. 

Tekin var góð og ítarleg umræða um skiptin í Lögmáli Leiksins á Stöð 2 Sport á dögunum. Umræðuna má sjá hér fyrir neðan: 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×