Upp­gjörið: Stjarnan - Tinda­stóll 82-90 | Tinda­stóll tyllti sér á toppinn

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Stólarnir eru á toppnum eftir sigur kvöldsins.
Stólarnir eru á toppnum eftir sigur kvöldsins. Vísir/Jón Gautur

Tindastóll vann sterkan átta stiga sigur er liðið heimsótti Stjörnuna í toppslag Bónus-deildar karla í körfubolta í kvöld, 82-90.

Stjörnustemning í upphafi leiks

Stjörnumenn byrjuðu af gríðarlegum krafti, Orri Gunnarsson setti fyrstu stigin með þriggja stiga skoti og Shaquille Rombley tróð svo af alefli í næstu sókn. Stúkan tók strax við sér og stemningin var öll Stjörnumegin fyrstu mínúturnar.

Jaka Klobucar, nýjasti leikmaður Stjörnunnar, spilaði rúmar tuttugu mínútur. Setti sex í tölfræðiflokkunum þremur.
Giannis Agravanis átti fínan leik fyrir Tindastól en bróðir hans, nýjasti leikmaður Stólanna, tók ekki þátt í kvöld.vísir / jón gautur

Á voru meðan Stólarnir í vandræðum sóknarlega en gátu sem betur fer treyst á Adomas Drungilas, sem setti fyrstu átta stigin, áður en aðrir leikmenn tóku við sér.

Stólarnir stóðu varnirnar vel

Eftir afar öfluga byrjun fjaraði hins vegar fljótt út hjá Stjörnunni og liðið lenti undir í baráttunni.

Stuðningsmenn Tindastóls mættu vel og létu í sér heyra.vísir / jón gautur

Tindastóll nýtti tækifærið og tók eins stigs forystu áður en fyrsta leikhluta lauk. Stólarnir héldu svo áfram að keyra á Stjörnumenn og stækkuðu forystuna í öðrum leikhluta, staðan 37-46 þegar flautað var til hálfleiks.

Stólarnir héldu áfram að standa öfluga vörn í seinni hálfleik, Stjarnan fann engar lausnir og stemningin í húsinu dvínaði með hverri mínútunni sem Stólarnir færðust nær sigrinum.

Ægir Þór Steinarsson átti slakan leik og sat á bekknum nánast allan fjórða leikhluta. Hann hefur verið að glíma við meiðsli undanfarið.vísir / jón gautur

Stutt áhlaup heimamanna undir lokin

Það var ekki fyrr en í fjórða leikhluta sem Stjörnumenn sýndu aftur almennilega að þeim langaði til að vinna leikinn. Shaquille Rombley og Hilmar Smári kveiktu í húsinu með troðslu og þriggja stiga skoti, Adomas Drungilas var svo vikið af velli eftir fimmtu villuna í næstu sókn Tindastóls.

Stjarnan minnkaði muninn niður í sex stig í næstu sókn og virtist ætla að snúa leiknum við.

Sigtryggur stakk rýtingnum

Það gerðist hins vegar ekki, Sigtryggur Arnar svaraði fyrir Stólana, setti niður gríðarmikilvægan þrist sem breikkaði bilið í átta stig og svo gott sem tryggði sigurinn.

Síðustu tvær mínútur leiksins settu Stjörnumenn snögg skot og sendu Stólana á línuna, en tókst ekki að minnka muninn. Lokatölur 82-90.

Sigtryggur Arnar setti risastór skot fyrir Stólana í fjórða leikhluta.vísir / jón gautur

Staðan í deildinni

Tindastóll tók toppsætið með þessum sigri. Liðin eru jöfn með 26 stig en Tindastóll hefur unnið báðar innbyrðis viðureignirnar. Njarðvík er sex stigum neðar en á leik til góða.

Leikurinn fór fram fyrr en aðrir í sautjándu umferð vegna anna Benedikt Guðmundssyni, þjálfara Tindastóls, með kvennalandsliði Íslands.

Tindastólsmenn fagna með stuðningsmönnum sínum.vísir / jón gautur



Dómararnir nutu aðstoðar myndavéla í kvöld. Davíð Tómas, Jóhannes Páll og Davíð Kristján mynduðu þríeyki kvöldsins og héldu vel utan um flauturnar. vísir / jón gautur

Stemning og umgjörð

Vel haldið á spöðunum hjá Stjörnunni. Hitað upp á Dúllubar frá klukkan fimm og stuðningsmönnum beggja liða boðið. Úrslitaleikurinn á HM í handbolta og enski boltinn á skjánum, hljómsveitin Úlfur Úlfur spilaði svo og keyrði upp stemninguna, sem skilaði sér sannarlega í hús.

Hvað er framundan?

Bæði lið fá nú fínt frí, þar til fimmtudagsins 13. febrúar þegar Stjarnan heimsækir Hött og Tindastóll tekur á móti Þór Þorlákshöfn. Fimm umferðir eru eftir óspilaðar í deildinni.

Tindastóll á eftir leiki við Þór Þorlákshöfn (H), Álftanes (Ú), Keflavík (H), Njarðvík (Ú) og Val (H).

Stjarnan á eftir leiki við Hött (Ú), Þór Þorlákshöfn (Ú), Álftanes (H), Keflavík (Ú) og Njarðvík (H).

Viðtöl

„Stólarnir kepptu harðar en við hér í dag“

Baldur Þór var býsna ósáttur með frammistöðu sinna manna í kvöld.vísir / jón gautur

„Ósáttur með að tapa og bara pirraður yfir því,“ sagði Baldur Þór Ragnarsson, þjálfari Stjörnunnar, strax eftir leik.

Stjörnumenn byrjuðu sterkt. Hvers vegna náðuð þið ekki að halda því áfram?

„Það er bara góð spurning. Við náðum ekki að halda því og Stólarnir kepptu harðar en við hér í dag. Við þurfum að vera betri.“

Ægir Þór lét lítið að sér kveða í kvöld og sat á bekknum nánast allan fjórða leikhlutann.

„Hann er að díla við þennan fót, ef þú horfir á leikinn þá er hann haltrandi þarna í seinni hálfleik. Það er bara ástæðan.“

Tindastóll tekur toppsætið af Stjörnunni með þessum sigri.

Hversu miklu máli skiptir það, hvort liðið endar ofar?

„Kemur bara í ljós,“ sagði Baldur að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira