Handbolti

Elliði skipti út rauðu skónum eftir rauðu spjöldin

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Elliði Snær er orðinn hjátrúarfullur og fer ekki aftur í rauðu skóna.
Elliði Snær er orðinn hjátrúarfullur og fer ekki aftur í rauðu skóna. vísir/vilhelm

Eftir erfiða byrjun á HM þar sem Elliði Snær Viðarsson var rekinn af velli í upphafi leiks gegn Grænhöfðaeyjum náði hann vopnum sínum gegn Kúbu og var valinn maður leiksins.

Elliði Snær var búinn að fá tvö rauð í síðustu þremur leikjum og því eðlilega kátur að klára 60 mínútur.

„Jú, maður er ánægður með það. Gott að ná 60 mínútum. Ég undirbjó mig eins og fyrir alla leiki. Það var gott fyrir mig að ná góðri frammistöðu og ná að hita lappirnar fyrir komandi verkefni,“ sagði línumaðurinn skemmtilegi á hóteli landsliðsins í gær.

„Það var svekkjandi að fá þessi rauðu spjöld. Þetta var það lélegt að ég var meira svekktur út í sjálfan mig heldur en reiður og pirraður.“

Slóvenar bíða strákanna okkar í kvöld. Risaleikur þar sem tvö stig eru í boði inn í milliriðilinn.

„Mér líst vel á þetta. Þetta verður verðugt verkefni því þeir eru virkilega góðir. Við verðum að vera einbeittir og sérstaklega varnarlega. Einbeitingin verður að vera mjög góð,“ segir Elliði en strákarnir hafa eðlilega verið að bíða svolítið eftir þessum leik.

Klippa: Hjátrúarfullur Elliði skipti um skó

„Mér fannst við gera vel að fókusera á hina leikina en við vorum búnir að pæla aðeins í þeim. Við ýttum þessu aðeins til hliðar en þetta var alltaf bak við eyrað.“

Elliði Snær var í rauðum skóm er hann fékk rauðu spjöldin. Þeim var lagt í Kúbuleiknum er hann mætti í hvítum skóm.

„Rauðu skórnir verða bara á æfingum til að byrja með. Við spörum þá í leikjunum. Ég held ég haldi mig við þessa hvítu fyrst það gekk vel. Verður maður ekki að vera smá hjátrúarfullur?“

Leikur Íslands og Slóveníu hefst klukkan 19.30 og verður í beinni textalýsingu á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×