Innlent

Tjón varð á yfir 20 bif­reiðum vegna hola í höfuð­borginni

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögregla biðlar til ökumanna að fara varlega.
Lögregla biðlar til ökumanna að fara varlega. Vísir/Vilhelm

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust fjölmargar tilkynningar og aðstoðarbeiðnir í gær og nótt vegna bifreiða sem höfðu tjónast eftir að hafa verið ekið ofan í holur.

Frá þessu er greint í yfirliti lögreglu yfir verkefni næturinnar.

Lögregla vill vekja athygli á því að nú þegar fer að þíða í kjölfar frostaveðursins aukist hættan á því að holur myndist í vegum, meðal annars á malbikuðum vegum borgarinnar. Þá sé umtalsverð hætta á því að tjón verði á bifreiðum við að aka ofan í slíkar holur, þar sem þær geti verið djúpar.

Yfir 20 bifreiðar tjónuðust á höfuðborgarsvæðinu í gær eftir að hafa verið ekið ofan í holur. Um var að ræða eina holu í íbúðahverfi, aðra holu í hringtorgi og nokkrar holur á stofnbraut, allt í austurborginni.

Í flestum tilvikum neyddust ökumenn til að skipta um dekk áður en þeir gátu haldið áfram leiðar sinnar.

Lögregla hefur látið veghaldara vita og gert honum að gera ráðstafanir en beinir því til ökumanna að gæta varúðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×