Innlent

Rektor MH tekur við skóla­málum borgarinnar

Árni Sæberg skrifar
Steinn hefur verið rektor MH í sex ár.
Steinn hefur verið rektor MH í sex ár. Vísir/Egill

Borgarráð samþykkti í dag ráðningu Steins Jóhannssonar í starf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar. Steinn hefur gegnt stöðu rektors Menntaskólans við Hamrahlíð undanfarin sex ár.

Í tilkynningu á vef Reykjavíkurborgar segir að Steinn hafi verið konrektor MH í eitt ár áður en hann tók við stöðu rektors og þar áður hafi hann verið skólameistari Fjölbrautaskólans í Ármúla í fimm ár. Frá 2002 til 2012 hafi Steinn verið forstöðumaður kennslusviðs Háskólans í Reykjavík en áður hafi hann kennt í bæði grunn- og framhaldsskóla og sinnt auk þess stundakennslu við Háskóla Íslands.

Steinn sé með meistaragráðu í sagnfræði frá University of Louisiana, Monroe og bakkalárgráðu frá sama skóla í stjórnmálafræði og sögu. Hann hafi lokið uppeldis- og kennslufræði frá Háskóla Íslands og hafi auk þess lagt stund á doktorsnám í uppeldis- og menntunarfræði við sama skóla.

Forverinn fór yfir til ráðuneytisins

Starf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar hafi verið auglýst til umsóknar í nóvember eftir að tilkynnt var að Helgi Grímsson myndi hætta sem sviðsstjóri um áramót til að stýra umbótaverkefni í mennta- og barnamálaráðuneytinu. Alls hafi 22 umsóknir um stöðuna borist en fjórir umsækjendur hafi dregið umsókn sína til baka. Í samræmi við reglur um ráðningar borgarráðs í æðstu stjórnunarstöður hafi ráðgefandi hæfnisnefnd verið skipuð.

Búi yfir yfirgripsmikilli reynslu

Í lokaskýrslu hæfnisnefndar til borgarráðs segi að það sé sameiginlegt mat hæfnisnefndar að Steinn sé best til þess fallinn að taka við starfi sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar. 

„Það byggir á yfirgripsmikilli reynslu hans af stjórnun og rekstri menntastofnana, brennandi áhuga og þekkingu á skóla- og frístundamálum og jákvæðri og skýrri framtíðarsýn á hin brýnu viðfangsefni sviðssins.”




Fleiri fréttir

Sjá meira


×