Fótbolti

Reyna að lokka Arnór aftur til Sví­þjóðar

Sindri Sverrisson skrifar
Arnór Sigurðsson hefur lítið getað spilað með Blackburn í vetur og rennur núgildandi samningur hans við félagið út í sumar.
Arnór Sigurðsson hefur lítið getað spilað með Blackburn í vetur og rennur núgildandi samningur hans við félagið út í sumar. Getty/Gary Oakley

Þrjú sænsk félög hafa sýnt því áhuga að fá Arnór Sigurðsson, landsliðsmann í fótbolta, frá Blackburn. Samningur Arnórs við enska félagið rennur út í sumar.

Sænski fótboltamiðillinn Fotbollskanalen segist hafa heimildir fyrir því að Djurgården, Norrköping og meistaralið Malmö hafi öll sett sig í samband til að kanna áhuga Arnórs. Heimilt er að ræða við hann því nú er minna en hálft ár eftir af núgildandi samningi hans við Blackburn.

Þessi 25 ára Skagamaður lék við afar góðan orðstír í Svíþjóð með Norrköping 2017-18 og var svo seldur fyrir mikið fé til CSKA Moskvu, eða um hálfan milljarð króna. Hann var lánaður frá Rússlandi til Venezia á Ítalíu og sneri aldrei aftur til Moskvu eftir innrásina í Úkraínu. Hann lék aftur með Norrköping í eitt ár, frá júlí 2022, áður en hann fór svo til Blackburn 2023.

Eins og fyrr segir rennur samningur Arnórs við Blackburn út í sumar en samkvæmt Fotbollskanalen hefur hann þó ekki sýnt því áhuga að yfirgefa félagið í janúar. Mögulegt er að Blackburn bjóði honum nýjan samning. 

Arnór hefur sáralítið spilað fyrir Blackburn í ensku B-deildinni í vetur, eftir alvarleg veikindi og meiðsli í kjölfar þeirra.

Hann hefur aðeins komið við sögu í fimm deildarleikjum, alltaf sem varamaður, en skorað eitt mark. Á síðustu leiktíð skoraði hann fimm mörk og átti tvær stoðsendingar, í nítján leikjum en tímabilinu lauk fyrr en ella eftir að Arnór lenti í skelfilegri tæklingu í EM-umspilinu gegn Ísrael í mars.

Malmö varð sænskur meistari á síðustu leiktíð, með yfirburðum, og á því möguleika á að spila í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð. Djurgården varð í 4. sæti en Norrköping, gamla liðið hans Arnórs, hafnaði í 11. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×