Fótbolti

Knattspyrnukonur eyddu jólunum í fangelsi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Knattspyrnukonurnar fjórar þurftu að dúsa í fangelsi öll jólin en þær eru nú lausar. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Knattspyrnukonurnar fjórar þurftu að dúsa í fangelsi öll jólin en þær eru nú lausar. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Getty/Dondi Tawatao

Fjórir leikmenn kvennaliðs River Plate í fótbolta eru loksins lausar úr fangelsi þar sem þær dúsuðu í marga daga eftir handtöku í fótboltaleik stuttu fyrir jól.

Leikmenn argentínska liðsins voru handteknar fyrir kynþóttafordóma gagnvart boltastrák í leik liðsins í fótboltamóti í Sao Paulo.

Þetta var undanúrslitaleikur í mótinu á milli River Plate og brasilíska liðsins Grêmio. Dómari stöðvaði leikinn og rak sex leikmenn River af velli með rautt spjald. Hann flautaði svo leikinn af vegna þess að það voru ekki nægilega margir leikmenn liðsins eftir inn á vellinum.

Leikmennirnir sem voru síðan handteknar af brasilísku lögreglunni fyrir rasisma heita Candela Díaz, Camila Duarte, Juana Cángaro og Milagros Díaz. Þær voru handteknar eftir þennan leik liðsins 21. desember síðastliðinn.

Þær losnuðu síðan ekki fyrr á föstudaginn 27. desember og aðeins með því að lofa að mæta fyrir rétt í Sao Paulo í hverjum mánuði þar til að dómsmálið klárast. ESPN segir frá.

Konurnar eyddu því jólunum í fangelsi.

Díaz er sökuð um að gefa boltastráknum apamerki en knattspyrnukonurnar segja að strákurinn hafi ögrað þeim. Þjálfari Grêmio hélt því einnig fram að argentínsku leikmennirnir hafi kallað leikmenn sína apa í leiknum.

Staðan var 1-1 í leiknum og Grêmio var síðan dæmdur sigur og argentínska félagið sett í tveggja ára bann.

Hvorki lögfræðingur kvennanna eða þær sjálfar hafa gefið upp hvort þær séu á leiðinni aftur heim til Argentínu.

River Plate fordæmdi kynþáttafordóma kvennanna og segist ætla að taka á málinu innanhúss.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×