Enski boltinn

Guardiola var á undan Haaland með stóru fréttirnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Erling Braut Haaland og kærasta hans Isabel Haugseng Johansen eftir sigur Manchester City í Meistaradeildinni vorið 2023. Þau eru nú orðin foreldrar.
Erling Braut Haaland og kærasta hans Isabel Haugseng Johansen eftir sigur Manchester City í Meistaradeildinni vorið 2023. Þau eru nú orðin foreldrar. Getty/Giuseppe Maffia

Norski framherjinn Erling Braut Haaland er orðinn faðir í fyrsta sinn en það var ekki hann sjálfur heldur knattspyrnustjóri hans sem sagði heiminum frá því í gær.

Haaland skoraði í langþráðum sigri Manchester City í ensku úrvalsdeildinni í gær og eftir leikinn fór Pep Guardiola, knattspyrnustjóri City, í viðtal við enska fjölmiðla. Hann var spurður út í norska framherjann.

Haaland tilkynnti það sjálfur í október að hann og kærasta hans Isabel Haugseng Johansen ættu von á barni. Nú er það komið í heiminn. Hún er tvítug en Haaland 24 ára.

Enskir fjölmiðlar eins og Guardian fengu fréttirnar frá Pep eftir sigurinn í gær.

„Stundum hefur Erling fengið á sig of harða gagnrýni en það er bara hluti af fótboltanum. Hann er þreyttur og hefur spilað margar mínútur,“ sagði Guardiola og hélt áfram:

„Hann varð faðir í fyrsta sinn fyrir nokkrum dögum. Því fylgja miklar tilfinningar og þetta hafa verið spennandi dagar fyrir hann,“ sagði Guardiola.

Haaland hafði ekki skorað í sex af síðustu sjö leikjum og klikkaði á vítaspyrnu í leiknum á undan.

Hann skoraði aftur á móti í fyrsta leiknum eftir að hann varð faðir í fyrsta sinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×