Erlent

Trump setur eignar­hald Græn­lands aftur á dag­skrá

Kjartan Kjartansson skrifar
Bandaríkskar flugvélar á Thule-herflugvellinum á Grænlandi. Eyjan er talin hafa hernaðarlegt og viðskiptalegt mikilvægi, ekki síst ef siglingarslóðir um norðurheimskautið opnast.
Bandaríkskar flugvélar á Thule-herflugvellinum á Grænlandi. Eyjan er talin hafa hernaðarlegt og viðskiptalegt mikilvægi, ekki síst ef siglingarslóðir um norðurheimskautið opnast. Vísir/Getty

Eignarhald og yfirráð yfir Grænlandi eru algerlega nauðsynleg, að mati Donalds Trump, verðandi forseta Bandaríkjanna. Hann setti málið aftur á dagskrá þegar hann tilnefndi vin Elons Musk sem næsta sendiherra Danmerkur. Fyrri hugmyndir Trump um kaup á Grænlandi voru hlegnar út af borðinu.

Ken Howery, einn stofnenda greiðslumiðlunarinnar Paypal og fyrrverandi sendiherra Bandaríkjanna í Svíþjóð í fyrri forsetatíð Trump, er sendiherraefni verðandi forsetans í Danmörku. Þegar Trump greindi frá því sagði hann einnig að yfirráð yfir Grænlandi væru lykilatriði.

„Fyrir þjóðaröryggi og frelsi í heiminum finnst Bandaríkjunum að eignarhald og yfirráð yfir Grænlandi séu alger nauðsyn,“ skrifaði Trump án þess þó að segja hreint út að Bandaríkin ættu að eiga Grænlandi.

Hann viðraði þá hugmynd skömmu fyrir fyrirhugaða heimsókn til Danmerkur árið 2019. Bæði danskir og grænlenskir ráðamenn höfnuðu henni alfarið. Trump aflýsti heimsókninni eftir að Mette Frederikssen, forsætisráðherra, sagði hugmyndina „fráleita“. Bandaríski forsetinn sagði orð Frederiksen „óviðeigandi“ og „viðbjóðsleg“.

Ken Howery, þá sendiherra Bandaríkjanna í Svíþjóð, með Magdalenu Svíaprinsessu á viðburði árið 2019.Vísir/Getty

Howery er hluti af hópi sem var nefndur „Paypal-mafían“ en henni tilheyra einnig Musk, sem er einn helsti bakhjarl og ráðgjafi Trump um þessar mundir, og Peter Thiel, annar erkiíhaldsamur auðkýfingur sem styrkir bandaríska repúblikana.

Musk neitaði því fyrir nokkrum árum að hann byggi á laun í íburðarmiklu sveitasetri Howery í Texas á sama tíma og hann hélt því fram að hann byggi í ódýrri leiguíbúð nærri starfsstöð geimferðafyrirtækisins SpaceX.


Tengdar fréttir

Danir hæðast að áhuga Trump á að kaupa Grænland

Aprílgabb á röngum árstíma og merki um að Trump sé endanlega genginn af göflunum er á meðal þess sem danskir stjórnmálamenn hafa sagt um fréttir af áhuga hans á að kaupa Grænland.

Vildi býtta á Grænlandi og Púertó Ríkó

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna sagðist tilbúinn til að gefa Dönum yfirvöld á Púertó Ríkó í stað þess að Bandaríkin fengju völd yfir Grænlandi.

Trump staðfestir áhuga á Grænlandskaupum

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur staðfest fregnir þess efnis að hann hafi áhuga á því að Bandaríkin festi kaup á Grænlandi. Hann segir þó að möguleg kaup séu ekki í forgangi hjá ríkisstjórn hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×