Handbolti

„Ég er svo ó­trú­lega stolt af þér pabbi“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
María Þórisdóttir er afar ánægð með föður sinn, ekki bara hvað vann mikið heldur hvernig hann fór að því.
María Þórisdóttir er afar ánægð með föður sinn, ekki bara hvað vann mikið heldur hvernig hann fór að því. Getty/Ryan Pierse/Andrea Kareth/

María Þórisdóttir sendi föður sínum fallega kveðju eftir að Þórir Hergeirsson endaði þjálfaraferil sinn hjá norska kvennalandsliðinu í handbolta með því að vinna sitt ellefta stórmót með norska landsliðinu.

Norska liðið varð Evrópumeistari í sjötta sinn undir hans stjórn eftir sigur á Danmörku í úrslitaleiknum.

María, sem spilar með enska félaginu Brighton, skrifaði sæta kveðju til föður síns á samfélagsmiðlum. María skrifaði kveðjuna á norsku nema hún notaði íslenska heitið yfir pabba.

„Í dag lokaðir þú tilkomumiklum kafla í norsku handboltasögunni með einu gullinu í viðbót. Með þessum þrjátíu árum í handbolta og ótrúlegum fimmtán árum sem landsliðsþjálfari þá hefur þú verið innblástur og gleðigjafi til heillar þjóðar og alls heimsins. Öll verðlaunin tala sínu máli,“ skrifaði María.

„Það eru samt ekki bara verðlaunapeningarnir sem mér þykir mikið til koma heldur er ég stoltust af því hvernig manneskja þú ert. Ástríða, yfirvegun og klók leiðtogahæfni þín hefur haft góð áhrif á svo marga. Þú hefur frábæra hæfileika til að sjá það besta í fólki, vekja upp áhuga hjá því og lyfta öðrum upp,“ skrifaði María.

„Ég er svo ótrúlega stolt af þér pabbi. Ekki aðeins fyrir því sem þú hefur afrekað inn á vellinum heldur hvernig þú hefur verið sem leiðtogi, hvernig þú hefur byggt upp þín lið og hvernig þú hefur verið uppspretta innblásturs fyrir svo marga,“ skrifaði María.

„Sautján verðlaun á stórmótum sem landsliðsþjálfari er tala sem fáir, ef þá einhver, getur náð. Nú er komið að öðrum kafla og nýjum ævintýrum. Ég get ekki beðið eftir því hverju þú tekur upp á í framtíðinni. Ég er viss um að þú hittir þar naglann líka á höfuðið,“ skrifaði María.

„Takk fyrir allt sem þú hefur gefið handboltanum. Nú getur þú komið heim sem kóngurinn sem þú hefur alltaf verið. Nú fyrir fullt og allt,“ skrifaði María.


Tengdar fréttir

Af­henti Þóri gjöf á blaða­manna­fundi eftir leik

Það er engum blöðum um það að fletta að Þórir Hergeirsson nýtur mikillar virðingar í handboltaheiminum. Það kom berlega í ljós á blaðamannafundi eftir úrslitaleik Noregs og Danmerkur á Evrópumótinu í dag.

Þórir kvaddi norska liðið með Evrópu­titli

Þórir Hergeirsson kveður norska landsliðið í handknattleik með Evrópumeistaratitli en Noregur vann öruggan sigur á Dönum í úrslitaleik í Vínarborg í dag. Þetta er ellefti stóri titill norska liðsins undir stjórn Þóris.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×