Handbolti

Dönsku stelpurnar í undanúrslitin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dönsku stelpurnar voru mjög flottar í þessum mikilvæga leik í kvöld.
Dönsku stelpurnar voru mjög flottar í þessum mikilvæga leik í kvöld. Getty/Alex Davidson

Danmörk varð í kvöld fjórða og síðasta liðið til að tryggja sér sæti í undanúrslitum á Evrópumóti kvenna í handbolta.

Dönsku stelpurnar unnu þá fjögurra marka sigur á Hollandi, 30-26, í hreinum úrslitaleik um í leikjum um verðlaunasæti.

Þetta er sjötta stórmótið í röð sem danska kvennalandsliðið kemst alla leið í undanúrslit en liðið vann brons á Ólympíuleikunum í París í sumar og fékk einnig bronsverðlaun á heimsmeistaramótinu fyrir ári síðan. Danir fengu líka silfur á EM 2022 og voru í undanúrslitum á HM 2023 og EM 2020.

Þetta er 24. skiptið sem danska kvennalandsliðið kemst í undanúrslit á stórmóti.

Lið Dana var með frumkvæðið allan leikinn, komst mest þremur mörkum yfir í fyrri hálfleik en leiddi með tveimur mörkum í hálfleik, 15-13. Danir kláruðu síðan leikinn með sannfærandi endaspretti þótt þær hollensku hafi aðeins minnkað muninn í blálokin.

Danska liðið fylgir því Noregi í undanúrslitaleikina en Norðmenn voru búnir að tryggja sér sigur í milliriðlinum fyrir lokaumferðina.

Danmörk mætir heimsmeisturum Frakka í sínum undanúrslitaleik en Norðmenn spila við Ungverjaland. Undanúrslitaleikirnir fara fram á föstudaginn. Hollensku stelpurnar mæta aftur á móti Svíþjóð í leiknum um fimmta sætið.

Anne Mette Hansen skoraði sjö mörk fyrir Dani í kvöld og Helena Elver Hagesö var með fimm mörk og átta stoðsendingar. Anna Kristensen varði líka mjög vel í danska markinu.  Dione Housheer var frábær hjá Hollandi með tíu mörk og sex stoðsendingar en það dugði ekki til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×