Innlent

Kjálkabraut mann með einu höggi

Árni Sæberg skrifar
Héraðsdómur Norðurlands eystra kvað upp dóm í málinu þann 26. nóvember.
Héraðsdómur Norðurlands eystra kvað upp dóm í málinu þann 26. nóvember. Vísir/Vilhelm

Karlmaður hefur verið dæmdur til þriggja mánaða skilorðsbundinnar refsingar fyrir líkamsárás. Hann játaði að hafa veitt brotaþola eitt hökk í andlitið með þeim afleiðingum að hann kjálkabrotnaði, ein tönn datt úr honum og önnur losnaði.

Í dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra, sem birtur var í dag, segir að maðurinn hafi verið ákærður fyrir að hafa tekið brotaþolann hálstaki og kýlt hann ítrekað í andlitið, með þeim afleiðingum að brotaþoli kjálkabrotnaði, ein tönn datt úr honum og önnur losnaði.

Við fyrirtöku málsins hafi sækjandi breytt ákæru á þann veg að maðurinn hafi einu sinni kýlt brotaþola í andlitið. Hann hafi komið fyrir dóm og játað sök samkvæmt breyttri ákæru.

Með játningu hans, sem ekki væri ástæða til að efa að sé sannleikanum samkvæm, og gögnum málsins, væri nægilega sannað að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem í ákæru er lýst og þar sé réttilega heimfærð til ákvæðis almennra hegningarlaga um stórfellda líkamsárás.

Við ákvörðun refsingar hafi verið litið til þess að maðurinn hefði ekki sakaferil sem máli skiptir að baki og skýlausrar játningar hans. Með vísan til þess væri refsing hans hæfilega ákveðin þriggja mánaða fangelsi en refsingu skyldi frestað skilorðsbundið til tveggja ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×