Erlent

Mega ekki lengur leggja stund á hjúkrunar- og ljós­móður­fræði

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Þessar afgönsku konur og fleiri hafa fengið aðstoð við að ferðast erlendis til að leggja stund á nám í heilbrigðisvísindum.
Þessar afgönsku konur og fleiri hafa fengið aðstoð við að ferðast erlendis til að leggja stund á nám í heilbrigðisvísindum. Getty/Jane Barlow

Talíbanar virðast hafa tekið ákvörðun um að banna konum að nema hjúkrunar- og ljósmóðurfræði, ef marka má nýjustu fregnir. 

Nemendur hafa greint frá því að hafa fengið skilaboð um að hætta að mæta í tíma. Þá hafa fimm stofnanir víðsvegar í Afganistan staðfest við BBC að þeim hafi verið skipað að loka dyrum sínum.

Fregnirnar koma ekki endilega á óvart en Talíbanar hafa gengið mjög hart gegn rétti kvenna til menntunar og þeim er nú allt að því ómögulegt að sækja sér nokkurs konar framhaldsmenntun umfram barnaskóla.

Stjórnvöld hafa ítrekað heitið því að stúlkum verði aftur hleypt í nám þegar búið er að grípa til viðeigandi ráðstafana, til að mynda að tryggja „íslamska“ námskrá. Ekkert hefur hins vegar orðið af því.

Hjúkrunarfræði- og ljósmóðurnám og -störf hafa verið meðal afar fárra námsleiða og starfa sem konum hefur staðið til boða eftir að Talíbanar komust aftur til valda. Það hefur í raun verið lífsnauðsynlegt, þar sem karlkyns heilbrigðisstarfsmenn mega ekki meðhöndla konur nema karl náin þeim sé viðstaddur.

Áætlað er að um 17.000 konur hafi verið nám eða í þjálfun þegar þeim var bannað að mæta aftur. Sameinuðu þjóðirnar sögðu í fyrra að Afganistan þyrfti 18.000 ljósmæður til viðbótar til að mæta þörfinni í heilbrigðiskerfinu.

Þannig er ljóst að ákvörðunin gæti haft veruleg áhrif á heilsu og velferð kvenna í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×