Handbolti

Haukarnir með þrjú síðustu mörkin og eru í góðum málum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Össur Haraldsson og félagar í Haukaliðinu eru með xx marka forskot fyrir seinni leikinn.
Össur Haraldsson og félagar í Haukaliðinu eru með xx marka forskot fyrir seinni leikinn. Vísir/Anton Brink

Haukar eru í fínum málum eftir fimm marka sigur á aserska liðinu Kur í fyrri leik sínum í 32 liða úrslitum Evrópubikarsins í handbolta.

Haukar unnu leikinn 30-25 eftir að hafa verið skrefinu á undan stærstan hluta leiksins.

Haukar voru tveimur mörkum yfir þegar fimm mínútur voru eftir en skoruðu þrjú síðustu mörkin í leiknum. Þessi lokasprettur gæti vegið þungt í seinni leiknum.

Sigurður Snær Sigurjónsson var markahæstur í Haukaliðinu með sex mörk, Össur Haraldsson skoraði fjögur mörk og þeir Brynjólfur Snær Brynjólfsson, Geir Guðmundsson og Andri Fannar Elísson voru með þrjú mörk hver.

Haukar leika báða leiki sína úti í Aserbaísjan þessa helgi og leikurinn í dag telst vera heimaleikur liðsins. Seinni leikurinn fer fram á morgun.

Haukar byrjuðu vel og komust í 2-0, 5-3 og 7-4 á upphafsmínútum leiksins. Þetta varð þó ekki eins þægilegt eins og það leit út í byrjun.

Í stöðunni 10-9 fyrir Hauka þá skoruðu leikmenn Kur fjögur mörk í röð og komust þremur mörkum yfir, 13-10.

Haukarnir náðu að svara með þremur mörkum og staðan var því 13-13 í hálfleik. Össur Haraldsson skoraði fjögur mörk í fyrri hálfleiknum en Andri Fannar Elísson var með þrjú af fyrstu sjö mörkum Haukanna í leiknum

Haukarnir byrjuð seinni hálfleikinn vel og voru strax komnir með þriggja marka forskot. Kur náði muninum niður í eitt mark en aldrei að jafna metin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×