Skytturnar léku á als oddi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Skytturnar fagna.
Skytturnar fagna. EPA-EFE/MIGUEL A. LOPES

Skytturnar hans Mikel Arteta gerðu sér lítið fyrir og pökkuðu Sporting saman á útivelli í Meistaradeild Evrópu í kvöld. Lokatölur 1-5 og ljóst að Sporting saknar þjálfara síns fyrrverandi, Rúben Amorim.

Gestirnir frá Lundúnum byrjuðu af krafti og kom Gabriel Martinelli þeim yfir strax á 7. mínútu eftir lága fyrirgjöf Jurriën Timber frá hægri. Um miðbik fyrri hálfleiks átti Bukayo Saka fína sendingu inn á teig þar sem Kai Havertz gat ekki annað en skorað af stuttu færi.

Staðan orðin 0-2 og heimamenn í vondum málum. Undir lok fyrri hálfleiks má segja að Skytturnar hafi gert út um leikinn. Declan Rice tók þá hornspyrnu sem rataði beint á kollinn á miðverðinum Gabriel og þaðan flaug boltinn í netið, staðan 0-3 í hálfleik.

Gonçalo Inácio minnkaði muninn fyrir Sporting eftir aðeins tvær mínútur í síðari hálfleik, það var þó ekki nóg þar sem gestirnir gáfu heldur betur í. David Raya hafði fengið gult fyrir leiktöf áður en gestirnir fengu vítaspyrnu eftir rúmlega klukkustund. 

Saka fór á punktinn og skoraði af miklu öryggi. Varamaðurinn Leandro Trossard gerði svo út um leikinn á 82. mínútu með góðu marki. Sænska markamaskínana Viktor Gyökeres var nálægt því að minnka muninn en skot hans hafnaði í stönginni. Það reyndist besta færa heimaliðsins eftir að það minnkaði muninn og lokatölur í Portúgal 1-5.

Eftir leik kvöldsins eru liðin í 7. og 8. sæti Meistaradeildarinnar með 10 stig hvort að loknum fimm leikjum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira