Fótbolti

Bodø/Glimt með langþráðan sigur

Siggeir Ævarsson skrifar
Patrick Berg skoraði fyrra mark Bodo/Glimt í dag
Patrick Berg skoraði fyrra mark Bodo/Glimt í dag Vísir/Getty

Ríkjandi meistarar Bodø/Glimt unnu langþráðan sigur í norsku úrvalsdeildinni þegar liðið lagði botnlið Odd en næst síðasta umferð deildarinnar var leikin í dag.

Fyrir leikinn hafði Bodø/Glimt ekki unnið leik í deildinni síðan í lok september meðan að Brann hefur verið á miku skriði, unnið sjö leiki í röð, og hafði tyllt sér í toppsætið fyrir leiki dagsins. Liðið missteig sig aftur á móti í dag þegar liðið lá á útivelli gegn Molde 2-1.

Á sama tíma vann Bodø/Glimt 2-0 sigur á botnliði Odd sem þýðir að úrslitin í deildinni ráðast ekki fyrr en í lokaumferðinni. Bodø/Glimt er með 59 stig á toppnum en Brann með 58 í 2. sæti. Lokaumferðin fer fram þann 1. desember. 

Þá tekur Bodø/Glimt á móti Lillestrøm, sem er þegar fallið úr deildinni en Brann tekur á móti Viking. Viking er í þriðja sæti deildarinnar, þremur stigum á eftir Bodø/Glimt. Liðið á tæknilega séð ennþá tölfræðilegan möguleika á titlinum, en það þarf þá að vinna Brann með 16 marka mun og treysta á að Bodø/Glimt tapi sínum leik.

Í öðrum leikjum dagsins bar það helst til tíðinda að Hilmir Rafn Mikaelsson skoraði fyrra mark Kristansund í 1-2 sigri á KFUM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×