Viðskipti innlent

Hækka ekki verð­tryggðu vextina

Árni Sæberg skrifar
Lilja Björk Einarsdóttir er bankastjóri Landsbankans.
Lilja Björk Einarsdóttir er bankastjóri Landsbankans. Vísir/Sigurjón

Landsbankinn hefur tilkynnt um vaxtabreytingar í kjölfar stýrivaxtalækkunar Seðlabankans í fyrradag. Landsbankinn fylgir ekki fordæmi hinn viðskiptabankanna tveggja, sem hafa tilkynnt um hækkanir á verðtryggðum vöxtum.

Í tilkynningu á vef Landsbankans segir að þann 2. desember næstkomandi taki ný vaxtatafla gildi. Breytingar séu helstar eftirfarandi:

Útlánsvextir

  • Breytilegir vextir á óverðtryggðum íbúðalánum lækka um 0,50 prósentustig og verða frá 10,00%.
  • Fastir vextir til þriggja ára á nýjum óverðtryggðum íbúðalánum lækka um 0,35 prósentustig og verða frá 8,50%.
  • Fastir vextir til fimm ára á nýjum óverðtryggðum íbúðalánum lækka um 0,20 prósentustig og verða frá 8,35%.
  • Kjörvextir á óverðtryggðum lánum lækka um 0,50 prósentustig.

Yfirdráttarvextir lækka um 0,50 prósentustig.

Innlánsvextir

  • Vextir á óverðtryggðum veltureikningum lækka um 0,25-0,50 prósentustig.
  • Vextir á óverðtryggðum sparireikningum lækka um 0,25-0,50 prósentustig.
  • Vextir á reikningum í erlendri mynt taka breytingum í samræmi við breytingar á stýrivöxtum og markaðsvöxtum í viðkomandi mynt.

Engar breytingar verði á vöxtum verðtryggðra inn- eða útlána. Íslandsbanki tilkynnti um allt að 0,3 prósentustiga hækkun vaxta á verðtryggðum útlánum í fyrradag og fyrr í dag tilkynnti Arion banki um allt að 0,4 prósentustiga hækkun á sömu vöxtum. Arion banki sá tilefni til þess að rökstyðja þá ákvörðun sína.

Stytta hámarkslánstíma

Í tilkynningunni segir að samhliða vaxtabreytingunum taki gildi breytingar á útlánareglum Landsbankans sem feli meðal annars í sér að hámarkslánstími nýrra verðtryggðra íbúðalána verði 25 ár. Fyrstu kaupendum bjóðist þó áfram að taka verðtryggð lán til 30 ára.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×