Handbolti

Frá­bær sigur hjá Orra og fé­lögum á móti PSG

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Orri Freyr Þorkelsson var í stóru hlutverki hjá Sporting liðinu í kvöld.
Orri Freyr Þorkelsson var í stóru hlutverki hjá Sporting liðinu í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Orri Freyr Þorkelsson spilaði mjög vel í stórsigri Sporting í Meistaradeildinni í handbolta í kvöld en Guðmundur Guðmundsson sá sína menn í Fredericia missa frá sér góða stöðu í jafntefli á útivelli.

Sporting fór á kostum í ellefu marka sigri á franska stórliðinu Paris Saint-Germain Handball, 39-28.

Það munaði reyndar bara einu marki í hálfleik, 16-15, en portúgalska liðið fór á kostum í þeim seinni sem liðið vann 23-13.

Orri Freyr spilaði mjög vel í vinstra horni Sporting og var með sjö mörk úr átta skotum. Fjögur af mörkum hans komu úr vítum.

Það var aðeins Martim Mota Costa sem skoraði fleiri mörk eða níu.

Sporting hefur unnið fimm af átta leikjum sínum en endaði tveggja leikja taphrinu með þessum góða sigri.

Lærisveinar Guðmundar Guðmundssonar í Fredericia gerðu 29-29 jafntefli á útivelli á móti norður-makedónska liðinu Eurofarm Pelister.

Pelister jafnaði metin á lokamínútum eftir að hafa unnið sig inn í leikinn.

Strákarnir hans Guðmundar voru þremur mörkum yfir í hálfleik, 16-13, en það dugði ekki til. Pelister kom til baka í seinni og náði stig.

Þetta var aðeins þriðja stig Fredericia í átta leikjum og með því komst liðið upp fyrir Wisla Plock og af botninum í A-riðlinum. Eurofarm Pelister hefði misst Fredericia upp fyrir sig með tapi en er áfram einu stigi á undan.

Einar Þorsteinn Ólafsson skoraði eitt mark fyrir Fredericia í kvöld en Anders Kragh Martinusen var markahæstur með sjö mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×