Skoðun

Er að­gangur að sér­fræðiþjónustu jafnaður ó­háð bú­setu?

Hildigunnur Svavarsdóttir skrifar

Samkvæmt reglugerð nr. 1111/2020 um heilbrigðisumdæmi og hlutverk, starfsemi og þjónustu heilsugæslustöðva, heilbrigðisstofnana og sjúkrahúsa er hlutverk Sjúkrahússins á Akureyri (SAk) skýrt. Sjúkrahúsinu er ætlað að veita heilbrigðisþjónustu í samræmi við skyldur kennslusjúkrahúss, þar á meðal sérfræðiþjónustu í nær öllum viðurkenndum greinum heilbrigðisvísinda með aðgengi að stoðdeildum og rannsóknadeildum.

Þrátt fyrir skýrar lagaskyldur hefur SAk átt í erfiðleikum með að uppfylla þær. Vandinn liggur meðal annars í því hve erfitt hefur reynst að fá sérhæfða lækna til starfa utan höfuðborgarsvæðisins. Þessi þróun er áhyggjuefni og kallar á lausnir, þar sem áhersla er lögð á aukið samstarf sjúkrahúsa um land allt til að tryggja bæði rekstrarhagkvæmni og jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Í stað þess að flytja sjúklinga langar vegalengdir til þjónustu, ætti markmiðið að vera að flytja þjónustuna nær fólkinu.

Í byggðaáætlun fyrir 2022–2036 er sett fram markmið um að jafna aðgang að sérfræðiþjónustu óháð búsetu. Heilbrigðisstefna Íslands til 2030 leggur sömuleiðis áherslu á örugga og hagkvæma heilbrigðisþjónustu fyrir alla landsmenn. Þrátt fyrir þetta er aðgengi að sérfræðiþjónustu mismunandi eftir búsetu. Á höfuðborgarsvæðinu er þjónustan mest aðgengileg, en hún versnar eftir því sem fjær dregur.

Til að bregðast við þessu þarf að skipuleggja sérfræðiþjónustu í hverju heilbrigðisumdæmi út frá þörfum íbúa. Einnig þarf að skilgreina hvaða þjónustu er raunhæft að veita á sjúkrahúsum sem glíma við manneklu. Ein leið til að tryggja betra aðgengi á landsbyggðinni er að efla hlutverk Landspítalans og SAk, þannig að þau geti veitt heilbrigðisstofnunum um land allt stuðning með sérfræðilæknum. Þetta kallar á að læknamönnun á þessum sjúkrahúsum sé skipulögð með þetta hlutverk í huga.

Heilbrigðisráðherra og þingmenn Framsóknarflokksins fyrir Norðurland eystra hafa lagt mikla áherslu á að færa þjónustuna nær fólki. Hins vegar er ljóst að betur má ef duga skal. Að flytja sérfræðilækna til landsbyggðarinnar frekar en að niðurgreiða ferðir sjúklinga til Reykjavíkur er bæði hagkvæmara og einfaldara.

Er þetta í forgangi hjá þínum stjórnmálaflokki fyrir komandi alþingiskosningar?

Höfundur er forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×