Fótbolti

Hlín í keppni við sjálfa sig um besta markið

Sindri Sverrisson skrifar
Hlín Eiríksdóttir í leik gegn Ólympíumeisturum Bandaríkjanna á dögunum.
Hlín Eiríksdóttir í leik gegn Ólympíumeisturum Bandaríkjanna á dögunum. Getty/Michael Wade

Landsliðskonan Hlín Eiríksdóttir átti frábært tímabil með Kristianstad í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í ár. Tvö af mörkum hennar eru tilnefnd sem besta mark ársins.

Hlín var einu marki frá því að verða markahæst í deildinni en hún endaði með 15 mörk, eftir að hafa gert tvö mörk í 5-0 útisigri gegn Trelleborg um helgina, í lokaumferðinni. Aðeins Momoko Tanikawa úr meistaraliði Rosengård skoraði meira eða 16 mörk, en Hlín og Cathinka Tandberg úr Hammarby komu næstar.

Sportbladet er með könnun í dag, fyrir lokahóf deildarinnar á fimmtudaginn, vegna vals á besta marki ársins. Hægt er að kjósa í gegnum Instagram.

Tvö marka Hlínar eru tilnefnd og hægt er að sjá þau hér að neðan, sem og mark sem Tuva Ölvestad skoraði og er einnig tilnefnt.

Klippa: Hlín með tvö af bestu mörkunum

Hlín, sem er 24 ára, var að ljúka sinni fjórðu leiktíð í Svíþjóð en hún lék fyrstu tvö árin með Piteå áður en hún skipti yfir til Kristianstad. Hún hefur nú þrjú tímabil í röð skorað meira en tíu mörk í deildinni, eða 11 mörk árin 2022 og 2023 og svo 15 mörk í ár.

Nú þegar leiktíðinni er lokið hjá Kristianstad verður næsti leikur Hlínar væntanlega 2. desember á Spáni, þegar Ísland mætir Danmörku í vináttulandsleik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×