Formúla 1

Lando Norris vann sprettinn en tímatökunni frestað vegna veðurs

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Lið Red Bull vonar innilega að tímatakan geti farið fram í fyrramálið.
Lið Red Bull vonar innilega að tímatakan geti farið fram í fyrramálið.

Tímatöku fyrir Formúlu 1 kappaksturinn í Sau Paulo í Brasilíu hefur verið frestað til morguns vegna mikillar rigningar. 

Lando Norris kom fyrstur í mark í sprettakstrinum í morgun, þar sem aðeins er keyrður hluti af heildarfjölda hringja kappakstursins. Hann minnkaði þar með forskot Max Verstappen í keppninni um heimsmeistaratitil ökuþóra niður í 44 stig.

Veðrið versnaði eftir því sem leið á daginn, tímatakan átti að hefjast klukkan 18:00. Henni var upphaflega frestað um tvo tíma áður en ákvörðun var tekin að fresta henni til morguns.

Það er til mikils að keppa í Sau Paulo þessa helgina þar sem aðeins fjórar keppnir eru eftir af tímabilinu.

Í fyrramálið kemur í ljós hvort tímatakan geti farið fram, og keppnin í framhaldi af því síðar um daginn. Fari svo að tímatakan geti ekki farið fram en keppnin geti það, verður notast við einu æfingu helgarinnar til að úrskurða um stöður á ráspól.

Þar var Lando Norris fyrstur í mark og Max Verstappen fimmtándi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×