Fótbolti

Sjáðu frá­bært mark Hlínar sem berst um gull­skó

Sindri Sverrisson skrifar
Hlín Eiríksdóttir fagnar með samherjum sínum eftir markið frábæra í dag.
Hlín Eiríksdóttir fagnar með samherjum sínum eftir markið frábæra í dag. Viaplay

Landsliðskonan Hlín Eiríksdóttir hefur raðað inn mörkum fyrir Kristianstad í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í ár og hún skoraði frábært mark gegn Djurgården í dag.

Hlín skoraði fyrsta markið í 3-1 sigri Kristianstad í dag, á 53. mínútu leiksins, þegar hún lék á tvo varnarmenn Djurgården og þrumaði svo í markið frá vítateigslínunni. Markið má sjá hér að neðan.

Djurgården tókst að jafna en Guðný Árnadóttir lagði upp annað mark Kristanstad á 79. mínútu, fyrir Tildu Persson, og Mathilde Janzen skoraði svo lokamarkið úr víti í uppbótartíma.

Auk Guðnýjar og Hlínar var Katla Tryggvadóttir á sínum stað í byrjunarliði Kristianstad og lék fram á 84. mínútu.

Hlín hefur nú skorað þrettán mörk á tímabilinu fyrir Kristianstad og er langmarkahæst í liðinu. Hún er ásamt Oliviu Holdt úr Rosengård í 3.-4. sæti yfir markahæstu leikmenn deildarinnar, með 13 mörk. Efst er Cathinka Tandberg, sem nú spilar með Hammarby, með samtals 15 mörk og Momoko Tanikawa úr Rosengård er með 14 mörk.

Keppinautar Hlínar eiga leik til góða nú um helgina en lokaumferð deildarinnar er svo næsta laugardag.

Rosengård hefur þegar tryggt sér sænska meistaratitilinn og það er einnig þegar orðið ljóst að Kristianstad endar í 4. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×