Sport

Steinunn Anna og Rökkvi byrja best

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steinunn Anna Svansdóttir hefur náð fyrsta eða öðru sæti í tveimur fyrstu greinunum.
Steinunn Anna Svansdóttir hefur náð fyrsta eða öðru sæti í tveimur fyrstu greinunum. @steinunnsvans

Fyrsti dagur Íslandsmótsins í CrossFit fór fram í gær en keppnin heldur síðan áfram í dag og á morgun.

Steinunn Anna Svansdóttir og Rökkvi Hrafn Guðnason eru í forystu eftir fyrstu tvær greinarnar.

Steinunn Anna leiðir hjá konunum en hún vann grein tvö og varð í öðru sæti í fyrstu greininni sem Birta Líf Þórarinsdóttir vann.

Steinunn er með 195 stig en þær Birta og Elín Birna Hallgrímsdóttir eru svo jafnar í öðru sætinu með 180 stig hvor. Hjördís Ósk Óskarsdóttir (167,4 stig) og Glódís Guðgeirsdóttir (165 stig) koma síðan í næstu sætum þar á eftir.

Rökkvi Hrafn leiðir hjá körlunum en það munar ekki miklu á efstu mönnum. Hann vann fyrstu grein og náði síðan þriðja sætinu í grein tvö. Það skilaði honum 190 stigum og fimm stiga forskoti.

Ingimar Jónsson er í öðru sæti með 185 stig eftir að hafa unnið grein tvö en endað í fjórða sætinu í fyrstu grein.

Þriðji er Tryggvi Þór Logason með 180 stig og í næstu sætum koma síðan Viktor Ólafsson (170 stig) og Bergur Sverrisson (167,5 stig).

Tvær greinar fara fram í dag og fara þær báðar fram hjá CrossFit Reykjavík. Fyrri greinin hefst klukkan 18.00 en sú seinni klukkan 19.45.

Keppendum er skipt niður í þrjá keppnishópa hjá hvoru kyni. Efstu í heildarkeppninni eru alltaf í þriðja og síðasta hópnum.

Síðustu þrjár greinarnar fara síðan fram á morgun laugardag þar af verður sú fyrsta í Heiðmörkinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×