Enski boltinn

Sá besti ekki einu sinn til­nefndur í ensku úr­vals­deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rodri var besti leikmaður heims á síðustu leiktíð en ekki einn af átta bestu leikmönnum ensku úrvalsdeildarinnar.
Rodri var besti leikmaður heims á síðustu leiktíð en ekki einn af átta bestu leikmönnum ensku úrvalsdeildarinnar. Getty/Carl Recine

Rodri fékk í gær Gullhnöttinn, Ballon d'Or, sem besti knattspyrnumaður ársins. Spænski miðjumaðurinn átti magnað ár og hafði betur í baráttunni við Vinícius Júnior.

Rodri varð enskur meistari með Manchester City og svo Evrópumeistari með spænska landsliðinu.

Hann varð aftur á móti fyrir því óláni að slíta krossband í byrjun þessarar leiktíðar. Rodri tók því við við Gullhnettinum á hækjum.

Vinícius Júnior og félagar hans í Real Madrid voru sannfærðir um sigur síns manns og fóru í fýlu þegar þeir fréttu af úrslitunum. Ákváðu þeir þá að skrópa á hófið.

Rodri hefur lengi verið í hópi allra bestu miðjumanna heims og síðustu ár hafa verið frábær hjá honum.

Mörgum þykir líka kominn tími til að einhver annar en framherji fá verðlaun sem þessi.

Það er jafnframt mjög athyglisvert að sá besti í heimi á síðasta ári var ekki einu sinni tilnefndur sem einn af besti leikmönnum ensku úrvalsdeildarinnar.

Leikmennirnir sem voru tilnefndir sem besti leikmaðurinn í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð voru nefnilega eftirtaldir: Phil Foden (Man City), Erling Haaland (Man City), Alexander Isak (Newcastle), Martin Ödegaard (Arsenal), Cole Palmer (Chelsea), Declan Rice (Arsenal), Virgil van Dijk (Liverpool) og Ollie Watkins (Aston Villa).

Rodri var því ekki meðal átta bestu leikmanna ensku úrvalsdeildarinnar og bara sá þriðji besti í sínu liði á eftir þeim Foden og Haaland. Hann fékk samt að fara með Gullhnöttinn heim í stofu.

Það var síðan Phil Foden sem var valinn leikmaður ársins í ensku úrvalsdeildinni. Hann endaði í ellefta sæti í kjörinu um Gullhnöttinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×