Innlent

Við­gerðin á flug­vél Gæslunnar kostaði 350 milljónir króna

Kjartan Kjartansson skrifar
TF-SIF er fimmtán ára gömul. Tæring fannst á gírkassa í hreyfli við reglulega skoðun í vor.
TF-SIF er fimmtán ára gömul. Tæring fannst á gírkassa í hreyfli við reglulega skoðun í vor. Vísir/Vilhelm

Lagt er til að fjárveitingar til landhelgismála verðir auknar um 350 milljónir króna í ár vegna kostnaðar við viðgerð á hreyflum TF-SIF, flugvélar Landhelgisgæslunnar. Forstjóri Landhelgisgæslunnar hefur kvartað undan því að stofnunin geti ekki rekið flugvél til að fylgjast með landhelginni.

Tæring fannst á ytra yfirborði gírkassa hreyfla flugvélarinnar þegar hún fór í reglubundna skoðun sem er gerð á fimm ára fresti í vor. Taka þurfti hreyflana af vélinni og senda hana í upptekt og viðgerð. 

Morgunblaðið greindi frá því í sumar að viðgerðin kostaði um þrjú hundruð milljónir króna. Þá yrði Gæslan af um hundrað milljónum króna í tekjur af því að senda vélina til verkefna fyrir Landamærastofnun Evrópu í haust.

Í fjáraukalögum, sem eru til umfjöllunar á Alþingi, er kveðið á um viðgerðarkostnaðinum verði mætt með því að hækka fjárheimild málaflokksins um 350 milljónir króna.

Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, sagði í viðtali í ágúst að stofnunin gæti ekki sinnt landhelginni sem skyldi vegna flugvélarskorts. Óásættanlegt væri að ekki væri hægt að halda úti að minnsta kosti einni flugvél til þess að verja lykilinnviði eins og sæstrengi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×