Fótbolti

Fann­ey verður ekki með gegn Ólympíu­meisturunum

Aron Guðmundsson skrifar
Fanney Inga Birkisdóttir með góð tilþrif.
Fanney Inga Birkisdóttir með góð tilþrif. Vísir/Anton Brink

Auður Sveinbjörnsdóttir Scheving, markvörður Stjörnunnar, hefur verið kölluð inn í íslenska landsliðið í knattspyrnu í stað Fanneyjar Ingu Birkisdóttir sem fékk höfuðhögg á æfingu sem veldur því að hún mun ekki geta tekið þátt í tveimur æfingaleikjum gegn ríkjandi Ólympíumeisturum Bandaríkjanna.

Fyrri leikur Íslands og Bandaríkjanna hefst rétt fyrir miðnætti í kvöld á íslenskum tíma og verður leikurinn spilaður á Q2 leikvanginum í Austin í Texas. Liðin mætast svo öðru sinni þremur dögum síðar á Geodis Park í Nashville, Tennessee.

Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari er tilneyddur til þess að gera þessa breytingu á landsliðshópnum í kjölfar æfingar íslenska landsliðsins en þarf fékk Fanney Inga höfuðhögg sem veldur því að hún getur ekki tekið þátt í þeim tveimur leikjum sem Ísland á fyrir höndum gegn Bandaríkjunum ytra. 

„Hún fékk eitthvað smá höfuðhögg á æfingu og verður ekki klár fyrir leikinn. Að öðru leiti eru allir aðrir leikmenn klárir,“ sagði Þorsteinn um stöðuna á Fanneyju sem og öðrum leikmönnum Íslands í viðtali sem birtist á samfélagsmiðlum KSÍ.

Fanney, sem lék lykilhlutverk í marki bikarmeistara Vals á nýafstöðnu tímabili, hefur varið mark íslenska landsliðsins að undanförnu. Auður Scheving sem hefur verið kölluð inn í landsliðshópinn í hennar stað spilaði fimm leiki í Bestu deildinni á nýafstöðnu tímabili með Stjörnunni. 

Fyrir voru þær Cecilía Rán Rúnarsdóttir, markvörður Inter Milan, og Telma Ívarsdóttir, markvörður nýkrýndra Íslandsmeistara Breiðabliks í íslenska landsliðshópnum og mun Auður nú mynda markvarðarteymi Íslands með þeim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×