Erlent

Segir Trump fas­ista sem dáist að ein­ræðis­herrum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Harris er nú djarfari í árásum sínum á Trump en oft áður.
Harris er nú djarfari í árásum sínum á Trump en oft áður. Getty/Megan Warner

Kamala Harris, varaforseti Bandaríkjanna og forsetaefni Demókrataflokksins, svaraði því játandi í gær þegar hún var spurð að því hvort Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti og forsetaefni Repúblikana, væri fasisti.

Það var Anderson Cooper, sjónvarpsmaður hjá CNN, sem bar spurninguna fram á opnum fundi með Harris. 

Varaforsetinn var spurð spjörunum úr á fundinum og í mörgum tilvikum svaraði hún spurningum um hitt og þetta með því að ráðast gegn andstæðing sínum.

„Mörgum sem er annt um þetta mál er einnig annt um að ná niður matvöruverði,“ svaraði Harris til að mynda þegar hún var spurð um neyð íbúa á Gasa. „Þeim er líka annt um lýðræðið og að vera ekki með forseta Bandaríkjanna sem dáist að einræðisherrum og er fasisti.“

Ummæli Harris, sem marka nokkra stigmögnun í árásum hennar á Trump, koma á hæla ummæla John Kelly, fyrrverandi starfsmannastjóra Trump í Hvíta húsinu. Hann sagði í vikunni að Trump félli sannarlega undir skilgreininguna á fasista og að hann hefði djúpar áhyggjur af þeirri ógn sem lýðræðislegar stofnanir stæðu frammi fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×