Skoðun

Lítil slaufa með mikla þýðingu

Halla Þorvaldsdóttir skrifar

Í dag er Bleikur dagur um allt land. Ísland er bleikt til stuðnings konum sem fengið hafa krabbamein og aðstandendum þeirra og í minningu þeirra sem við höfum misst.

Bleika slaufan lætur ekki mikið yfir sér en í 25 ár hefur hún öðlast sífellt stærri sess hjá þjóðinni. Með kaupum á slaufunni styður fólk við mikilvægt starf Krabbameinsfélagsins en slaufan gerir okkur öllum líka kleift að sýna stuðning okkar með áberandi hætti.

Við hjá Krabbameinsfélaginu heyrum það ítrekað hversu miklu það skiptir fólk að sjá aðra bera slaufuna. Það á jafnt við um þá sem eru sjálfir í glímunni við krabbamein og aðstandendur.

„Mér hlýnar alltaf aðeins um hjartaræturnar þegar ég sé fólk með Bleiku slaufuna í sjónvarpinu“ sagði mér kona í gær og önnur sendi skilaboð og þakkaði fyrir átakið með orðunum „Ég finn svo sterkt að ég er ekki ein í þessu þegar ég mæti fólki sem gengur með slaufuna“.

Í þessum fáu orðum kristallast hvernig Bleika slaufan er svo miklu meira en bleik slaufa. Hún er eins konar skilaboðaskjóða, sýnileg stuðningsyfirlýsing við málstaðinn og konur sem eru að takast á við krabbamein. Lítil slaufa með mikla þýðingu.

Við hjá Krabbameinsfélaginu þökkum þjóðinni fyrir að sýna sinn stuðning í verki, kaupa og bera Bleiku slaufuna. Það er ómetanlegt. Þið breytið öllu.

Höfundur er framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×