Fótbolti

AC Milan komið á blað og Móna­kó skoraði fimm

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Leikmenn AC Milan fagna.
Leikmenn AC Milan fagna. EPA-EFE/DANIEL DAL ZENNARO

Tveimur af leikjum kvöldsins í Meistaradeild Evrópu er nú lokið. AC Milan vann 3-1 sigur á Club Brugge og Mónakó fór létt með Rauðu Stjörnuna.

AC Milan hafði tapað fyrstu tveimur leikjum sínum í Meistaradeildinni svo það var vel séð þegar Christian Pulisic kom Mílanó-liðinu yfir eftir rúman hálftíma leik. Raphael Onyedika fékk svo beint rautt spjald í liði Club Brugge áður en fyrri hálfleik lauk.

Gestirnir létu það ekki á sig á fá og jöfnuðu metin eftir aðeins sex mínútna leik í síðari hálfleik. Kyriani Sabbe með markið eftir undirbúning Hugo Vetlesen.

Tijjani Reijnders kom AC Milan til bjargar með mörkum á 61. og 71. mínútu leiksins. Staðan orðin 3-1 og reyndust það lokatölur leiksins. AC Milan sem stendur í 18. sæti með þrjú stig á meðan Club Brugge er í 24. sæti með jafn mörg stig.

Í Mónakó var það Takumi Minamino sem kom heimaliðinu yfir en Cherif Ndiaye jafnaði metin fyrir gestina með marki úr vítaspyrnu. Breel Embolo kom Mónakó 2-1 yfir á fjórðu mínútu uppbótartíma fyrri hálfleiksins og heimamenn því með yfirhöndina þegar síðari hálfleikur hófst.

Wilfried Singo bætti við þriðja marki Mónakó á 54. mínútu og aðeins tveimur mínútum síðar skoraði Embolo mark sem var dæmt af. Minamino var svo aftur á ferðinni þegar tuttugu mínútur voru til leiksloka, eftir undirbúning Emboli, og staðan orðin 4-1.

Minamino sjálfur átti svo stoðsendinguna í síðasta marki leiksins en það skoraði Maghnes Akliouche í uppbótartíma, lokatölur 5-1.

Mónakó fer með sigrinum á topp Meistaradeildarinnar með 7 stig að loknum þremur umferðum en fjöldi liða getur náð toppsætinu að loknum leikjum umferðarinnar. Rauða stjarnan er á botninum án stiga en liðið hefur fengið á sig 11 mörk í leikjunum þremur til þessa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×