Lífið

Upp­götvaði frænkur á Ís­landi í ferð til Srí Lanka

Lovísa Arnardóttir skrifar
Tinna segir það hafa verið ótrúlegt að hitta ömmu sína loksins.
Tinna segir það hafa verið ótrúlegt að hitta ömmu sína loksins. Aðsend

Ferðalag Tinnu Rúnarsdóttur til Srí Lanka skilaði ekki aðeins dýrmætum tíma með systur sinni og ömmu heldur uppgötvaði hún líka að hún á frænkur á Íslandi. Svar úr DNA-prófi kom Tinnu í opna skjöldu sem veltir nú fyrir sér hvort móður hennar hafi verið nauðgað eða hún haldið fram hjá.

„Þetta var magnað ferðalag,“ segir Tinna en hún fór til Srí Lanka í síðasta mánuði til að hitta fjölskyldu sína. Með henni í för var eiginmaður hennar, Marinó Magnús Guðmundsson.

Tinna er ættleidd frá Srí Lanka árið 1984 en kom til landsins í upphafi árs 1985. Í vor ákvað hún að hefja leit að blóðforeldrum sínum. Stuttu eftir að hún hóf leitina komst hún að því að báðir foreldrar hennar voru látnir. Móðir hennar hafði verið myrt 2002 en faðir hennar lést stuttu eftir fæðingu hennar.

Tinna sagði sögu sína í viðtali á Vísi fyrr í vor og frá því þegar hún svo loks fékk þær erfiðu fréttir að foreldrar henni væru látnir. Á sama tíma komst hún samt að því að hún ætti tvær systur, ömmu og móðurbræður úti.

Óvæntar fréttir í DNA rannsókn

Á meðan Tinna var úti tók hún DNA sýni hjá fjölskyldumeðlimum sínum til að sannreyna fjölskyldutengslin. Stuttu eftir að hún kom heim fékk hún svo niðurstöðurnar.

„Systur mínar eru systur mínar og amma mín amma mín en þessi maður sem var giftur móður minni hann er ekki pabbi minn,“ segir Tinna.

Hún segir tvennt líklegt.

„Annað hvort hefur mamma haldið fram hjá 19 ára gömul og orðið ólétt sem hefur orðið til þess að þau skilja og ég er gefin. Eða það sem ég hallast meira að, og hef alltaf haft hugann við, er að henni hafi hreinlega verið nauðgað. Það komi þarna barn sem geti eyðilagt mannorðið og þau hafi ekki viljað láta það fréttast.“ 

Hér má sjá herbergið sem áður var fæðingarstofan þar sem Tinna fæddist.Aðsend

Þetta gæti hafa orðið til þess að foreldrar hennar skildu og bróðir móður hennar hafi neytt hana svo til að gefa hana.

„Mér finnst þetta líklegra en að hún hafi verið að halda fram hjá. En þetta er bara eitthvað sem ég mun þá líklega aldrei fá að vita. Það er líka auðvitað spurning hvort ég vilji það, hafi nauðgun verið ástæðan,“ segir Tinna.

Hún sé nú að reyna að komast að því hjá móðurfjölskyldu sinni hvort þau viti eitthvað um málið og hvort þau geti mögulega bent henni í rétta átt að manni sem mamma hennar hafi mögulega haldið við.

Glöð að systur hennar eru systur hennar

Tinna segir að það verði erfitt að segja „föðurfjölskyldunni“ sem hún er nýbúin að hitta frá þessu en henni líði eins og þau verði að fá val um það hvort þau haldi áfram að tala við hana eða ekki.

„Nú er þetta í raun bara bláókunnugt fólk. En ef þau vilja vera fjölskyldan mín þá mega þau alveg vera það. Ég er ættleidd og blóð segir mér ekki neitt um það en þau verða að fá að velja það.“

„Þetta skemmdi svolítið fyrir mér, ég viðurkenni það. En á móti kemur að ég fékk staðfest að amma og systur mínar eru skyldar mér. Ég auðvitað tengdist þeim mest þannig það gleður mig mjög mikið að vita það 100 prósent núna.“

Tinna segir annað óvænt hafa komið í ljós í DNA rannsókninni.

„Ég á tvær fjarskyldar frænkur hérna á Íslandi sem eru líka ættleiddar frá Srí Lanka. Mér finnst það alveg magnað,“ segir Tinna en hún á von á að hitta þær í nóvember í útgáfupartýi bókar Auri Hinriksson.

Hefði aldrei getað keyrt sjálf

Auri aðstoðaði Tinnu við skipulagningu ferðarinnar út til Srí Lanka. Auri hefur um árabil aðstoðað ættleidda Íslendinga við leit að uppruna sínum þar.

Tinna segir alveg ómetanlegt að haf fengið þessa aðstoð og hvetur þau sem hér búa og eru ættleidd frá Srí Lanka að nýta sér tækifærið áður en Auri getur ekki aðstoðað lengur.

„Auri yngist ekki og þegar hún hættir að hjálpa okkur höfum við engan til að hjálpa okkur. Það gerir svo gríðarlega mikið fyrir okkur sem ættleidda einstaklinga að fá þessi svör, eitthvað sem ég hélt virkilega að ég þyrfti ekki að fá fyrir nokkrum árum. Tilfinningin að fá svörin er svo mögnuð.“

Tinna og Marino reyndu líka að njóta lífsins á meðan þau voru á Srí Lanka.Aðsend

Auri fann fyrir Tinnu aðstoðarmann sem ók henni um Colombo og nágrenni og túlkaði fyrir hana þegar hún hitti fjölskylduna sína. Strax við komu á flugvöllinn tók aðstoðarmaðurinn, Peshan, á móti þeim og fylgdi þeim allan tímann og svo aftur til baka á flugvöllinn.

Tinna segist afar þakklát honum aðstoðina.

„Ég hefði ekki getað keyrt þarna í umferðinni. Það eru tvær akreinar en fjórir til sex bílar á hverri akrein. Svo bara flautarðu og treður þér,“ segir Tinna hlæjandi.

„Við komum út á miðvikudegi, eftir langt ferðalag, og svo var bara ræst snemma á fimmtudegi til að fara að hitta ömmu mína og móðurfjölskylduna.“ 

Áður en þau lögðu af stað til þeirra fóru þau fyrst að sækja fæðingarvottorðið hennar.

„Það er dálítið ólíkt því sem ég er með heima.“ 

Veit loksins hvenær hún fæddist

Á vottorðinu hafi verið nöfn beggja foreldra hennar auk spítalans í þorpinu sem hún átti heima í. Á vottorðinu sem hún á hérna heima sé aðeins nafn móður hennar og annars stærri spítala. Líklegt sé að þegar fæðingarvottorðið var fyllt út við ættleiðinguna hafi fólk verið að drífa sig og sett bara einhvern spítala.

„Ef ég hefði haft þetta vottorð frá upphafi hefði þetta allt verið miklu auðveldara.“

Tinna fór svo á spítalann þar sem hún fæddist til að fá frekari upplýsingar.

„Þar hitti ég hjúkrunarfræðing sem sýndi okkur fæðingarherbergið og herbergið sem ég dvaldi í þegar ég fæddist. Þarna fékk ég loks að sjá hvar ég fæddist, hvar ég var og hvernig spítalinn leit út.“ 

Hjúkrunarfræðingurinn hafi svo fundið fyrir þau nánari upplýsingar um fæðingu Tinnu.

„Þá fékk ég að vita hvaða dag og klukkan hvað ég fæddist. Ég er fædd 18:42 sem er um 13:12 á Íslandi. Ég var svo glöð með þetta því þarna fékk ég staðfestingu á því að afmælisdagurinn minn væri 9. nóvember eins og ég hef alltaf haldið. Það var svo góð tilfinning því ég hafði svo miklar áhyggjur af því að ég væri fædd fyrr og væri löngu orðin fertug,“ segir Tinna létt.

„Núna veit ég eins og aðrir klukkan hvað ég er fædd en ég veit ekki hversu stór eða þung ég var.“

Amma með allt á nótunum

Eftir þessa heimsókn héldu þau svo til að hitta ömmu Tinnu.

„Amma er það fallegasta sem ég hef séð. Þetta jafnaðist nánast á við það þegar ég hitti börnin mín. Hún er orðin mjög gömul en hausinn er alveg 150 prósent.“ 

Amma hennar hafi fylgst með öllu og verið með allt á nótunum.

„Ég var með einhverjar gjafir en svo var ég bara með myndir af börnunum mínum, fjölskyldunni, vinum og húsinu mínu sem við skoðuðum saman. Hún á auðvitað fjögur langömmubörn á Íslandi sem hún hafði aldrei séð.“

Amma Tinnu þrábað hana að taka sig með sér til Íslands.Aðsend

Þetta hafi verið afar falleg stund.

„En þarna var auðvitað að koma til baka, ættleitt barn með risastóran hvítan mann. Þannig það var allt þorpið þarna. Öll systkini mömmu og börnin þeirra,“ segir Tinna.

Í hópnum var einnig bróðir mömmu hennar sem fékk mömmu hennar og pabba til að gefa hana til ættleiðingar.

„Hann talaði nánast ekkert við mig og mér fannst hann skömmustulegur og flóttalegur.“  

Hún hafi ætlað að segja við hann síðar í ferðinni að hann þyrfti þess ekki en hún hafi ekki hitt hann aftur og því ekki fengið tækifærið til þess.

Lík mömmu sinni

„Þau fóru að skoða á mér tærnar því í móðurætt er eitthvað svaka bil á stóru tá. En ég er ekki með það,“ segir Tinna. Þau hafi svo haldið áfram að ræða þessa hluti.

„Hvað ég hefði fengið frá pabba og hversu lík mömmu ég var. Þetta var í fyrsta skipti sem einhver sagði að ég væri alveg eins og mamma. Að börnin mín væru svakalega lík mér og mömmu. Ég var auðvitað alveg í skýjunum.“

Tinna segir að þarna hafi hún líka fengið tækifæri til að spyrja út í sjúkdóma og hvernig mamma hennar var á lífi.

„Ég komst til dæmis að því að amma er með sykursýki, eins og ég. Þau vilja ekki meina að aðrir séu með hana en mig grunar sterklega að sykursýki sé um alla ætt en þau viti það ekki.“ 

Fjölskyldan í sjálfsþurftarbúskap

Hún útskýrir að fjölskylda hennar er afar illa menntuð og hafi haft takmarkað aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Hún segist hafa upplifað forréttindi sín afar sterkt á meðan hún var úti. Mamma hennar hafi sem dæmi aðeins lokið þremur árum í grunnskóla. Það sé ekki sjálfgefið, jafnvel í dag, að börn gangi í skóla. Fjölskyldan stundi sjálfsþurftarbúskap og sinni ekki annarri vinnu.

„Þau rækta sjálf hrísgrjón og ávexti og eru með einhver dýr. Það er uppistaðan í fæðunni og svo eru bara ávextir allan daginn. Við þekkjum þetta auðvitað ekkert.“

Tinna heimsótti einnig leiði móður sinnar.

„Við löbbuðum að einhverju húsi og niður brekku þaðan. Þá sagði bróðir mömmu að hún væri grafin einhvers staðar þarna og benti á lítinn skóg. Þau höfðu ekki hugmynd hvar hún var grafin. Það er ekkert merkt og enginn legsteinn eða neitt,“ segir Tinna og að þetta hafi komið henni verulega á óvart.

Tinna með Pavani systur sinni, eiginmanni hennar og dóttur.Aðsend

„Ég átti bágt með að trúa þessu.“

Eftir þetta hafi hann gengið með þau að staðnum þar sem Tinna varði fyrstu þremur mánuðum ævi sinnar. Húsið þeirra standi ekki enn en hún hafi fengið að sjá staðinn.

„Þá vissi ég í fyrsta sinn nákvæmlega hvar ég hef búið alla ævi. Við skoðuðum hvar húsið stóð. Rétt hjá er lítil brekka og grænn skógur. Þetta var svo fallegt og gaf mér svo mikið. Þarna bjó ég.“

Hamingjusamlega gift

Á þriðja degi hitti Tinna svo systur sínar. Fyrst hitti hún Pavani, manninn hennar og dóttur hennar.

„Hún á hús og bíl og það er ekki endilega sjálfgefið þarna. Hún er kannski 40 mínútum frá ömmu í bíl. Hún er gift af ást. Hún kynntist manninum sínum fyrir þremur árum, þau urðu ástfangin og eignuðust dóttur sína. Það sést á þeim að þau eru hamingjusöm.“

Tinna fór að því loknu inn í frumskóg þar sem hún ætlaði að hitta hina systur sína, eiginmann hennar og börnin þeirra.

„Þá kom áfallið,“ segir hún. Systir hennar hafi búið við afar hrörlegar aðstæður og ofbeldi.

„Maðurinn hennar rekur litla verslun við þjóðveginn og þau búa í húsnæði þar fyrir aftan. Húsið er eiginlega bara leirkofi sem er fastur við verslunina. Heimilið er um tuttugu fermetrar og maðurinn minn gat ekki staðið uppréttur. Veggirnir náðu ekki upp í þak og það er engin einangrun. Þú horfir bara beint á bárujárnið.“

Ofbeldið kom á óvart

Tinna segir ofbeldið hafa komið sér verulega á óvart og hversu lítið sé hægt að gera í því. Systir hennar hafi í raun ekki átt annan valkost en að búa við það. Þannig séu aðstæður hennar og margra kvenna á Srí Lanka.

Tinna með Pavani og Yeshanti systrum sínum og börnunum þeirra tveimur.Aðsend

Tinna og Marínó höfðu leigt sér hótelherbergi nærri heimili systur hennar og ætluðu að dvelja hjá henni daginn eftir. Þegar Tinna sá hvernig aðstaðan var ákvað hún frekar að bjóða systur sinni að koma til þeirra.

„Við fundum annað hótel og buðum henni að gista þar með okkur. Svo myndi hún taka strætó heim. Hún var meira en til í það og tók litla drenginn sinn með sér,“ segir hún en yngsti drengur systur hennar var 11 mánaða þegar hún heimsótti.

Tinna og Marínó leigðu tvö herbergi á hóteli í nágrenninu og stoppuðu svo á leiðinni í verslun.

„Ég tók kerru og benti Yasinthu á að setja drenginn í kerruna en hún hafði aldrei farið í matvöruverslun og kunni ekkert á kerruna.“

Aldrei notað klósett

Þegar þau komu svo á hótelið bauð hún henni að fara í sturtu en þurfti að stilla vatnið því Yasintah hafði aldrei farið í sturtu áður og sýna henni svo hvernig hún átti að sturta niður úr klósettinu.

„Þarna áttaði ég mig betur og betur á forréttindunum sem við búum við hér á Íslandi.“

Tinna segir þær systur hafa átt frábæra kvöldstund. Þær hafi borðað góðan mat og eftirrétt og svo sofið vel í góðu rúmi.

„Þetta var besta gjöfin sem ég gat gefið henni. Hún fór að sofa og þurfti ekki að hafa áhyggjur af því að vera lamin.“

Tinna segir að systir hennar hafi þetta kvöld sagt henni frá hefð í Srí Lanka þar sem börn fá mat í fyrsta sinn ellefu mánaða og fá í athöfninni gull að gjöf.

„Þau áttu ekki efni á þessu þannig ég ákvað að gefa honum fyrsta gullið. Við fórum í búð og hún fékk að velja gull sem kostaði 15 þúsund krónur,“ segir Tinna og að gullið sem hún valdi hafi varið 24 karatar.

Eftir þetta fóru þau Marínó að skoða ströndina og landið til þess að njóta en líka reyna að átta sig á öllu sem þau voru búin að upplifa.

Amma vildi koma með heim

Daginn eftir fóru þau svo aftur að hitta ömmu Tinnu og móðurfjölskyldu hennar.

„Það var alveg gríðarlega erfitt að kveðja ömmu því það eru meiri líkur en minni á að ég hitti hana aldrei aftur. Við ákváðum á meðan við vorum þarna að hringja í strákana heim í myndsímtali svo hún gæti séð strákana. Hún bað mig ítrekað að taka sig með sér eða vera eftir,“ segir Tinna og heldur áfram:

„Hún bað mig ítrekað að fresta heimförinni. Svo sagði hún mér að hún hefði haldið á mér þriggja mánaða og nú væri ég loksins komin aftur. Hún var þarna í rauninni að missa mig aftur.“

Tinna hitti einnig það sem hún hélt föðurfjölskyldu sína, sá heimili hans og hvar hann er grafinn. Hún segir afar þungu fargi hafa verið af henni létt við heimkomuna.

„Mér líður núna eins og ég sé heil. Ég kann ekki annað orð yfir það. Ég hef engar spurningar lengur og er búin að sjá allt sem ég þurfti að sjá. Það var svo gott að sjá ömmu mína og sýna henni börnin mín og það sem ég hef áorkað. Ég fékk upplýsingar um foreldra mína og fékk að heyra að ég og börnin mín væru lík einhverjum. Að börnin mín líkist mömmu minni.“ 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×