Íslenski boltinn

Telja lík­legt að Gylfi hætti: „Held að hann sé bara í fót­bolta út af lands­liðinu“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson í leiknum gegn Wales sem gæti hafa verið hans síðasti landsleikur.
Gylfi Þór Sigurðsson í leiknum gegn Wales sem gæti hafa verið hans síðasti landsleikur. vísir/anton

Sérfræðingar Stúkunnar eiga allt eins von á því að Gylfi Þór Sigurðsson leggi skóna á hilluna eftir leik Vals og ÍA í lokaumferð Bestu deildar karla um næstu helgi. Þeir segja að minna hlutverk hans í íslenska landsliðinu hafi mögulega áhrif á ákvörðun hans.

Gylfi klikkaði á vítaspyrnu í uppbótartíma þegar Valur gerði 1-1 jafntefli við FH á laugardaginn. Eftir leikinn ýjaði Gylfi að því hann gæti hætt eftir lokaumferðina um næstu helgi.

Ummæli Gylfa og framtíð hans voru til umræðu í Stúkunni á sunnudaginn. Guðmundur Benediktsson spurði Lárus Orra Sigurðsson hvort hann hefði trú á því að leikurinn gegn ÍA yrði síðasti leikurinn á ferli Gylfa.

„Mér finnst eins og hann sé, ég veit ekki um það og er bara að giska á, að hann sé að halda áfram út af landsliðinu. Og kannski er það að renna upp fyrir honum núna eins og þetta er að þróast hjá landsliðinu með Andra Lucas [Guðjohnsen] og Orra [Stein Óskarsson] frammi, Albert [Guðmundsson] og Hákon [Arnar Haraldsson] að koma inn, Jón Dagur [Þorsteinsson] að spila vel, að þetta sé bara að renna frá honum,“ sagði Lárus.

„Hann er með unga fjölskyldu og var að eignast son nýlega. Hann þarf væntanlega að fara erlendis ef hann ætlar að eiga einhvern séns í þetta landsliðsdæmi. Það kæmi mér ekkert á óvart ef hann myndi hætta. Að hætta er rosalega fín ákvörðun. Þú vilt ekki hætta of snemma en þú verður líka að passa þig á því fótboltinn gefist ekki upp á þér. Þú verður að finna rétta tímann. Ég yrði alls ekki hissa ef hann myndi hætta.“

Klippa: Stúkan - Umræða um Gylfa

Albert vill ekki sjá Gylfa hætta en það kæmi honum ekki á óvart ef skórnir færu upp í hillu.

„Ef Gylfi hefur það á tilfinningunni að aðrir menn séu að taka við í landsliðinu og hann sé nánast ekki í neinu hlutverki, þá held ég að hann hætti,“ sagði Albert.

„Ég sá ekki þetta viðtal en ég er sammála því að ef Gylfi finnur það einhvers staðar hjá sér að hans hlutverk hjá landsliðinu sé orðið lítið sem ekkert, og svo sannarlega ef hann finnur að það sé nánast ekkert, þá held ég að hann hætti. Ég held að hann sé bara í fótbolta til að spila með landsliðinu.“

Gylfi er markahæsti leikmaður í sögu íslenska landsliðsins með 27 mörk í 83 leikjum. Hann kom lítið við sögu í síðustu tveimur leikjum landsliðsins, gegn Wales og Tyrklandi.

Innslagið úr Stúkunni má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×