Íslenski boltinn

Ör­lög HK ráðast í Laugar­dal

Sindri Sverrisson skrifar
HK-ingar eiga enn raunhæfa von um að bjarga sér frá falli úr Bestu deildinni, eftir dramatískan sigur gegn Fram í gærkvöld.
HK-ingar eiga enn raunhæfa von um að bjarga sér frá falli úr Bestu deildinni, eftir dramatískan sigur gegn Fram í gærkvöld. vísir/Diego

Mikil eftirvænting ríkir vegna lokaumferðarinnar í Bestu deild karla í fótbolta um næstu helgi. Nú er orðið ljóst að niðurstaðan í fallbaráttunni ræðst meðal annars af leik á heimavelli 1. deildarliðs Þróttar í Laugardal.

KR-ingar hafa nefnilega tilkynnt að þeir muni spila lokaleik tímabilsins, gegn HK á laugardag, í Laugardalnum, vegna vallarmála í Vesturbænum.

KR getur með sigri komist upp fyrir KA og í 7. sæti, ef KA-menn tapa fyrir Fram í Úlfarsárdal.

Leikurinn er hins vegar enn mikilvægari fyrir HK-inga sem eru jafnir Vestra að stigum í 10.-11. sæti, en með ellefu mörkum verri markatölu. HK þarf því að ná betri úrslitum en Vestri sem tekur á móti föllnum Fylkismönnum á Ísafirði í lokaumferðinni á laugardaginn.

Það er kannski ekki úr vegi að örlög HK og Vestra ráðist að hluta til í Laugardalnum því þar lék Vestri þrjá heimaleiki í upphafi tímabils, meðal annars í 1-0 sigri gegn HK, áður en nýi gervigrasvöllurinn var tilbúinn á Ísafirði.

Stöðuna í neðri hlutanum má sjá hér að neðan.

Staðan í neðri hluta Bestu deildar karla.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×