Íslenski boltinn

Lætin í Kórnum: Rúnar tók ekki í höndina á Ómari og húfan slegin af honum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
„Hann tekur hársveipinn á hann.“
„Hann tekur hársveipinn á hann.“ stöð 2 sport

Upp úr sauð eftir leik HK og Fram í Bestu deild karla í gær. Rúnar Kristinsson og Ómar Ingi Guðmundsson, þjálfarar liðanna, áttu í einhverju orðaskaki og leikmaður Fram sló derhúfuna af Ómari.

HK vann leikinn, 2-1, með marki Þorsteins Arons Antonssonar undir blálokin. Þetta var þriðja sigurmark hans gegn Fram í sumar.

Framarar voru verulega ósáttir í leikslok en atvik skömmu fyrir sigurmarkið hleypti illu blóði í þá. Eftir að Guðmundur Magnússon settist á völlinn spörkuðu gestirnir boltanum út af. HK-ingar skiluðu honum hins vegar ekki til baka sem Framarar voru afar ósáttir með.

Eftir leikinn tók Rúnar ekki í höndina á Ómari. Þeir virtust þó skilja nokkuð sáttir eftir að hafa gengið saman inn á grasið.

„Hann tekur hársveipinn á hann,“ sagði Albert Ingason í Stúkunni í gær. „Það er mjög langt síðan ég hef séð þetta. Þeir löbbuðu síðan saman og ræddu saman. Það var ekkert illt,“ bætti Guðmundur Benediktsson við.

Klippa: Stúkan - Umræða um lætin í Kórnum

Þorri Stefán Þorbjörnsson, leikmaður Fram, sló svo derhúfuna af Ómari. Styrktarþjálfari HK brást illa við og hrinti Þorra.

„Hann þolir ekki derhúfur, Þorri,“ sagði Guðmundur í léttum dúr.

Innslagið úr Stúkunni má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×