Erlent

Ó­víst um endan­leg úr­slit varðandi Evrópustefnu Moldóvu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Sandu þegar hún greiddi atkvæði í gær.
Sandu þegar hún greiddi atkvæði í gær. AP/Vadim Ghirda

Um helmingur kjósenda í Moldóvu vill ganga í Evrópusambandið, ef marka má niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu sem gengið var til í gær, þegar 97,66 prósent atkvæða hafa verið talin.

Enn er óvíst um endanleg úrslit þar sem enn á eftir að telja utankjörfundaratkvæði.

Gengið var til atkvæðagreiðslunnar samhliða fyrri umferð forsetakosninga, þar sem Maia Sandu, sitjandi forseti, hlaut um 38 prósent atkvæða. Úrslit bæði atkvæðagreiðslunnar og forsetakosninganna eru nokkur vonbrigði fyrir Sandu, sem er Evrópusinni og hefur barist fyrir aðild að ESB.

Skoðanakannanir höfðu gefið til kynna að um það bil 60 prósent þjóðarinnar væri fylgjandi aðild og vildi gera nauðsynlegar stjórnarskrárbreytingar. Þá bentu þær til þess að Sandu hefði öruggt forskot á helsta keppninaut sinn, Alexandr Stoianoglo, sem er hliðhollur Rússum.

Úrslitin þýða hins vegar að Sandu þarf að mæta Stoianoglu í annarri umferð.

Stjórnvöld í Moldóvu hafa sveiflast á milli nánara samstarfs við Evrópu annars vegar og hollustu við Rússland hins vegar frá því að Sovétríkin liðu  undir lok. Sandu, sem var kjörinn forseti 2020, hefur talað fyrir Evrópusambandsaðild, ekki síst eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu.

Sandu, og aðrir ráðamenn í Moldóvu, hafa fordæmt meint inngrip Rússa í kosningarnar í landinu og sakað glæpahópa um að reyna að grafa undan hinu lýðæðislega ferli. Stjórnvöld í Moskvu eru sögð hafa fjármagnað stjórnarandstöðuhópa og „keypt“ atkvæði, svo eitthvað sé nefnt.

Moldóva hóf aðildarviðræður í júní síðastliðnum en miklar efasemdir eru um getu landsins til að uppfylla aðildarskilyrðin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×