Sport

Andrea setur met á EM í dag: „Við stefnum á fyrsta sætið“

Aron Guðmundsson skrifar
Andrea Sif Pétursdóttir, landsliðsfyrirliði íslenska kvennalandsliðsins í hópfimleikum er að halda inn í sitt sjötta Evrópumót í röð í fullorðinsflokki og þar með setur hún mótsmet.
Andrea Sif Pétursdóttir, landsliðsfyrirliði íslenska kvennalandsliðsins í hópfimleikum er að halda inn í sitt sjötta Evrópumót í röð í fullorðinsflokki og þar með setur hún mótsmet. Vísir/Einar

Með því að hefja leika með ís­lenska kvenna­lands­liðinu í hóp­fim­leikum á Evrópu­mótinu í Bakú í dag mun Andrea Sif Péturs­dóttir, fyrir­liði liðsins setja móts­met. Hún er bjart­sýn á að Ís­land geti unnið til gull­verð­launa á mótinu.

Evrópu­mótið í hóp­fim­leikum fer fram í Bakú í Azer­baíjan þetta árið og þangað eru fimm lands­lið Ís­lands á vegum Fim­leika­sam­bands Ís­lands mætt.

Þeirra á meðal er ís­lenska kvenna­lands­liðið en fyrir­liði liðsins, Andrea Sif Péturs­dóttir úr Stjörnunni, er að ná ansi merkum á­fanga í dag klukkan átta þegar að liðið hefur keppni í undanúrslitum Evrópu­mótsins.

Um er að ræða sjötta Evrópu­mót Andreu Sifjar í full­orðins­flokki í röð og með því að hefja keppni í dag­setur hún met í sögu mótsins með því að verða sú fim­leika­kona sem hefur oftast tekið þátt á EM og mun hún um leið jafna met fim­leika­karlsins Anders Win­ter frá Dan­mörku sem er sá karl­maður sem hefur oftast keppt á EM.

„Ég var búin að telja þetta saman og taldi mig vera fara á mitt áttunda Evrópu­mót en ég vissi ekki að ég væri fyrsta konan í full­orðins flokki til að fara á sex mót. Það er mjög skemmti­legt,“ segir Andrea Sig í sam­tali við í­þrótta­deild Stöðvar 2 en kvenna­lands­lið Ís­land er sam­sett úr reynslu­miklum fim­leika­konum í bland við aðrar sem eru að taka sín fyrstu skref á Evrópu­móti full­orðinna.

„Við erum sjö úr Stjörnunni, þrjár úr Gerplu, ein úr Ár­manni og ein frá Sel­fossi. Við höfum allar farið á stór­mót áður nema ein og erum margar með mikla reynslu af því að fara á stór­mót. Það er því mikil reynsla í þessu liði.“

Ís­lenska kvenna­lands­liðið er á meðal bestu kvenna­lands­liða Evrópu og stóð uppi sem Evrópu­meistari árið 2021. Þá nældi liðið í silfur­verð­laun á síðasta Evrópu­móti. Sex af tólf lands­liðs­konum Ís­lands voru í gull­liðinu árið 2021. Andrea Sif er bjart­sýn fyrir komandi mót en hvernig metur hún sigur­líkur liðsins?

„Ég tel líkurnar miklar. Við stefnum á fyrsta sætið. Eins og við gerum alltaf. Við höfum verið að taka fyrsta eða annað sætið síðustu fjór­tán ár. Liðið núna er virki­lega sterkt. Ég myndi segja að það séu miklar líkur á að við munum taka þetta.

Þessi hópur byrjaði að æfa saman í mars og síðan í júlí höfum við verið að æfa saman fimm sinnum í viku. Æfum í hvert skipti þrjá tíma í senn. Svo höfðum við keyrslu­mót fyrir hálfum mánuði síðan. Þar fengum við á­horf­endur í salinn. Við erum því að­eins búnar að fá að finna fyrir fiðringnum sem fylgir því að vera með á­horf­endur í salnum á meðan að við erum að æfa okkur. Það er bara ekki það sama fyrir okkur að fram­kvæma þessar æfingar fyrir framan á­horf­endur eða ekki. Með á­horf­endur í salnum fær maður þessa auka orku og sér hvernig maður er í al­vöru að fara standa sig.

Bjart­sýn?

„Já ég myndi segja það. Þetta verður mikið ævin­týri. Það hefur engin okkar farið til Bakú áður og ég veit ekki hvort að ein­hver okkar muni fara þangað aftur. Það er bara gaman að fá að sjá önnur lönd því oftast hafa þessi mót verið haldin á Norður­löndunum.“

Andrea Sif Pétursdóttir, landsliðsfyrirliði íslenska kvennalandsliðsins í hópfimleikum.Vísir/Einar

Norður­landa- og Evrópu­mótin. Stór­mótin sem ís­lenska kvenna­lands­liðið í hóp­fim­leikum tekin jafnan þátt á eru sett upp á svipaðan hátt. Á Evrópu­mótinu þarf Ís­land hins vegar að taka þátt í undanúrslitum.

„Það eru því tíu til tólf lið að mæta til leiks í hverjum flokki. Eftir undanúrslitin eru að­eins sex lið sem komast á­fram í úr­slitin í hverjum flokki. Við erum þar með að fá pínu æfingu í undanúrslitunum. Við reiknum oftast með því að komast á­fram þó svo að við munum alltaf þurfa að komast í gegnum undanúrslitin líka. En með þessu fyrir­komu­lagi er þar af leiðandi minna stress í manni komandi inn í úr­slita­hlutann því maður hefur farið og reynt á sig í höllinni áður.“

Gróska í hóp­fim­leikum en vantar fleiri stráka

Í keppni A-liða í full­orðins­flokki á Evrópu­mótinu sendir Ís­land tvö lið til leiks; Kvenna­lið og blandað lið en Ís­land hefur ekki sent blandað lið til leiks á EM síðan árið 2018. Þá endaði liðið í 3.sæti og ríkir spenna fyrir gengi liðsins á komandi Evrópu­móti. 

Þá verða þrjú lands­lið frá Ís­landi í ung­linga­flokki og mikil gróska í starfinu að sögn Andreu.

„Við erum með stúlkna-, drengja og blandað lið í ung­linga­flokki. Við gætum ekki sent fleiri lið til leiks í ung­linga­flokki og erum því með fullt hús þar. Í full­orðins flokki erum við með kvenna­lið og blandað lið. Við höfum áður farið með karla­lið á Evrópu­mótið en höfum aldrei geta sent blandað- og karla­lið á sama tíma til leiks því það vantar að­eins fleiri stráka inn í í­þróttina. Við vonum að bót verði þar á og að ein­hvern tímann getum við mætt með sex lið til leiks.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×