Innlent

„Það má berja barn á Ís­landi ef það er ekki með ís­lenska kenni­tölu“

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Oscar og Sonja.
Oscar og Sonja. Úr einkasafni

Lögregla sótti dreng frá Kólumbíu, Oscar Andres Florez Bocanegra, inn á salerni Flensborgar í gær og til stendur að flytja hann og föður hans úr landi í dag.

Frá þessu er greint í Morgunblaðinu, þar sem rætt er við Sonju Magnúsdóttur, annan eiganda Fitness Sport, sem hefur gengið Oscari í móðurstað á Íslandi.

Að sögn Sonju kom Oscar hingað til lands fyrir um tveimur árum og hefur fest hér rætur. Mál hans er um margt sérstakt en samkvæmt Sonju vita yfirvöld til þess að faðir hans hafi beitt hann bæði andlegu og líkamlegu ofbeldi en engu að síður standi til að senda þá saman aftur til Kólumbíu.

„Hann hef­ur verið meira og minna hjá okk­ur í heilt ár og að lok­um var hann far­inn að vera hérna fram und­ir miðnætti og þá fór mig að gruna að ekki væri allt með felldu heima hjá hon­um, hann var greini­lega log­andi hrædd­ur við að fara þangað,“ seg­ir Sonja í samtali við Morgunblaðið.

„Hann kom hérna ósof­inn og svaf hérna þrjá tíma á dag, hann sagði okk­ur ekk­ert og við héld­um bara að hann hefði áhyggj­ur af því að það ætti að senda fjöl­skyld­una hans heim,“ bætir hún við en að lokum hafi komið í ljós að hann væri beittur ofbeldi af föður sínum.

Segir allar stofnanir firra sig ábyrgð

Sonja segir málið hafa ratað til barnaverndar en í sumar hafi Oscar verið boðaður á fund án réttargæslumanns og hún ekki mátt vera viðstödd. Þar hafi honum verið tjáð að hann yrði sendur til baka með föður sínum. Oscar hafi beðið fulltrúa barnaverndar Hafnarfjarðar um upplýsingar um réttargæslumann sinn en verið neitað um þær.

Sonju hafi verið greint frá því að lögregla mætti ekki til læknis eða í skóla til að handtaka börn.

„Svo segja all­ar þess­ar stofn­an­ir bara, sama hver það er, „ja, ég er bara að fram­fylgja skip­un­um, ef ég fæ boð um eitt­hvað annað breyt­ist það“, all­ir eru að firra sig ábyrgð og að lok­um tek­ur eng­inn ábyrgð á mál­inu,“ segir hún.

Hún og maður hennar hafi beðið um að fá að verða fósturforeldrar drengsins í sumar en ekki verið svarað.

„Þetta er svo galið. Og það sem stend­ur upp úr af okk­ar hálfu í þessu máli er að það má berja barn á Íslandi ef það er ekki með ís­lenska kenni­tölu,“ segir Sonja.

Sonja segist hafa miklar áhyggjur af Oscari og hefur leitað til lögmanns til að freista þess að fá brottflutningnum frestað. Að óbreyttu verði Oscar sendur úr landi í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×