Sport

„Næstum því eins og að sjá ein­hvern lenda á tunglinu“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ruth Chepngetich fagnar sigri og heimsmeti sínu með keníska fánann. Hún bætti ekki bara heimsmetið heldur rústaði gamla heimsmetinu.
Ruth Chepngetich fagnar sigri og heimsmeti sínu með keníska fánann. Hún bætti ekki bara heimsmetið heldur rústaði gamla heimsmetinu. Getty/Michael Reaves

Keníska hlaupakonan Ruth Chepngetich skrifaði nýjan kafla í íþróttasögunni í Chicago í gærkvöldi þegar hún stórbætti heimsmetið í maraþonhlaupi kvenna.

Chepngetich kom í mark á tveimur klukkutímum, níu mínútum og 56 sekúndum og varð þar með fyrsta konan í sögunni til að hlaupa maraþonhlaup á undir tveimur klukkutímum og tíu mínútum.

Hún bætti ekki aðeins heimsmetið heldur stórbætti hún það um næstum því tvær mínútur.

Gamla metið var frá því í Berlínarmaraþoninu 2023 þegar hin eþíópíska Tigst Assefa kom í mark á tveimur klukkutímum, ellefu mínútum og 53 sekúndum.

Það munaði því aðeins þremur sekúndum að Chepngetich hefði bætt metið um heilar tvær mínútur.

„Þetta er næstum því eins og að sjá einhvern lenda á tunglinu,“ sagði maraþonhlauparinn Carrie Tollefson sem lýsti hlaupinu. Hún átti varla orð til að lýsa þessu mikla afreki en bætingin gríðarleg. Án efa eitt mesta íþróttaafrek ársins.

Chepngetich vann þetta hlaup líka 2021 og 2022 auk þess að verða í öðru sæti í fyrra.

Chepngetich sjálf var líka mjög sátt eftir hlaupið.

„Mér líður svo vel. Ég er stolt af sjálfri mér og ég þakka guði fyrir sigurinn og fyrir heimsmetið,“ sagði Chepngetich.

„Með þessu er draumur minn að rætast. Ég hef hugsað lengi um þetta heimsmet og er því mjög þakklát að það sé nú komið í höfn,“ sagði Chepngetich.

Chepngetich hafði einu sinni verið aðeins fjórtán sekúndum frá heimsmetinu sem var mjög svekkjandi fyrir hana en að þessu sinni var enginn vafi á því hvort hún myndi setja nýtt heimsmet. Hún keyrði upp hraðan frá byrjun og var nálægt því að setja persónulegt met í hálfmaraþoni. Mögnuð frammistaða hjá magnaðri íþróttakonu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×