Enski boltinn

Man City og enska úr­vals­deildin segjast bæði hafa borið sigur úr býtum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Etihad-völlurinn er heimavöllur Manchester City. Hann heitir eftir flugfélaginu Etihad.
Etihad-völlurinn er heimavöllur Manchester City. Hann heitir eftir flugfélaginu Etihad. MI News/Getty Images

Englandsmeistarar Manchester City sem og forráðamenn ensku úrvalsdeildar karla í knattspyrnu þykjast hafa haft betur í máli félagsins gegn deildinni er kemur að auglýsingatekjum. Ekki er um að ræða mál tengt 115 ákærunum á hendur Man City.

Félagið kvartaði vegna tveggja hluta af APT-regluverki ensku úrvalsdeildarinnar. Regluverkið snýr að því að félög geti ekki gert óraunhæfa auglýsingsamninga við fyrirtæki í eigu eiganda sinna. Þannig skal hver samningur vera innan raunhæfra marka svo eigendurnir geti ekki dælt inn fjármagni í félag sitt í gegnum auglýsingasamninga og þannig komist framhjá FFP- og PSR-fjárhagsreglum.

Í frétt breska ríkisútvarpsins, BBC, segir að dómstóll hafi dæmt Man City í hag í málinu en enska úrvalsdeildin hrósar engu að síður sigri. Sky Sports greinir frá því að Man City hafi unnið málið og að félög deildarinnar muni funda vegna niðurstöðu dómsins í næstu viku.

Yfirlýsing ensku úrvalsdeildarinnar er á þá vegu að Man City hafi viljað umturna regluverkinu frá A til Ö en niðurstaðan sé sú að aðeins sé um að ræða lagfæringu á  undirgreinum í annars flóknu regluverki. Sömuleiðis segir í yfirlýsingu deildarinnar að dómstóllinn hafi hafnað þeim rökum að APT-regluverkið mismunaði félögum þar sem rekja mætti eignarhald til Persaflóa.

Englandsmeistararnir eru í eigu City Football Group ásamt fleiri liðum. Bakhjarl CFG er svo furstadæmið Abú Dabí en það er stærst af þeim sjö furstadæmum sem mynda Sameinuðu arabísku furstadæmin.

Yfirlýsing Man City einblíndi á þá tvo hluti sem verður breytt í regluverkinu og þá sagði félagið það ljóst að enska úrvalsdeildin hefði misnotað stöðu sína.

Það má því reikna með lagfæringu á regluverkinu en það stendur engu að síður og því geta félög ekki gert óraunhæfa samninga við fyrirtæki í eigu eigenda sinna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×