Fótbolti

Svein­dís Jane og Sæ­dís Rún á skotskónum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sveindís Jane á fleygiferð.
Sveindís Jane á fleygiferð. Swen Pförtner/Getty Images

Knattspyrnukonurnar Sveindís Jane Jónsdóttir og Sædís Rún Heiðarsdóttir skoruðu báðar í öruggum sigra liða sinna í kvöld.

Sveindís Jane hóf leik Wolfsburg og Leipzig á varamannabekknum og var þar þangað til klukkustund var liðin af leiknum. Þá var staðan 1-0 en það tók landsliðsframherjann aðeins fimm mínútur að tvöfalda forystu Wolfsburg í leiknum.

Heimakonur bættu við þremur mörkum áður en flautað var til leiksloka, lokatölur 5-0 og Wolfsburg nú með 10 stig í 3. sæti þýsku úrvalsdeildarinnar. 

Glódís Perla Viggósdóttir og stöllur hennar í Bayern München eru á toppnum með 12 stig eftir að hafa leikið leik minna en Wolfsburg.

Sædís Rún var í byrjunarliði Vålerenga sem vann 3-1 útisigur á Asane í efstu deild Noregs. Íslenska landsliðskonan lék í stöðu vinstri vængbakvarðar og skoraði hún þriðja mark gestanna á 72. mínútu.

Kom markið Vålerenga 3-0 yfir en heimakonur klóruðu í bakkann undir lok leiks, lokatölur 1-3. Sigurinn þýðir að Vålerenga er hænuskrefi frá norska meistaratitlinum en liðið er með 14 stiga forystu þegar fimm umferðir eru eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×